Erlent

Sómalski herinn fær vestræna þjálfun

Óli Tynes skrifar
Vesturlönd vilja meðal annars losna við sómalska sjóræningja.
Vesturlönd vilja meðal annars losna við sómalska sjóræningja.

Bandaríkin íhuga að aðstoða Evrópusambandið við að þjálfa nýjan her fyrir Sómalíu, sem á í hörðu stríði við islamska uppreisnarmenn.

Richard J. Sherlock hershöfðingi sem stýrir Afríkudeild Bandaríkjahers segir að samvinna við Evrópusambandið sé möguleg á mörgum sviðum.

Þjálfun Evrópusambandsins á sómölskum hermönnum er liður í breiðu alþjóðlegu samstarfi um að auka stöðugleika í landinu.

Samkvæmt áætluninni munu 200 evrópskir leiðbeinendur þjálfa sveitir um 2000 sómalskra hermanna hverja af annarri í herstöðvum í Uganda.

Með aðstoð Bandaríkjamanna væri hægt að meira en tvöfalda þá tölu, en Bandaríkjamenn hafa mikla reynslu í þjálfun erlendra hermanna.

Í Sómalíu hefur hvorki verið starfhæf ríkisstjórn né stjórnarher frá árinu 1991. Það er opinbert leyndarmál að með þessu stefna Vesturveldin meðal annars að því að uppræta gengi sjóræningja sem hafa rænt tugum skipa árlega nokkur undanfarin ár.

Einnig vilja þau koma í veg fyrir að islömsk hryðjuverkasamtök eins og al Kaida hreiðri þar um sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×