Innlent

Þarf að reyksprengja húsgögnin eftir svartan myglusvepp

Margrét með börnunum sínum
Margrét með börnunum sínum

„Þeir lofuðu að hreinsa það sem hægt er að bjarga og koma því heim. En það var ekkert meira, þeir voru ekki að bjóða mér bætur eða niðurfellingar eða eitthvað svoleiðis," segir Margrét Andrésdóttir, einstæð þriggja barna móðir á Egilsstöðum. Eins og Vísir greindi frá á þriðjudaginn þurfti Margrét að yfirgefa húsnæði sem Sveitarfélagið Fljótsdalshérað útvegaði henni eftir að svartur myglusveppur gerði vart við sig. Margrét missti nánast allt innbúið sitt og hún og börnin hennar urðu mikið veik í kjölfarið.

Margrét fundaði með stjórnendum bæjarins í morgun. „Þessi fundur snérist í rauninni um að klára þetta mál, það er að segja að dótið mitt liggi ekki óhreyft einhvers staðar og þeir fari í það að hreinsa það." Hún hefur undanfarna daga búið eins og í útilegu með engin húsgögn.

Nú á að setja hluta af dótinu hennar í gám þar sem reyksprengja verður sprengd. Sprengjan á að hreinsa sveppinn úr húsgögnum sem ekki er hægt að hreinsa. Húsgögnin verða lokuð inn í gámnum í þrettán klukkutíma eftir að sprengjan verður sprengd.  „Hún á að smjúga inn í það sem við náum ekki að hreinsa," segir Margrét en bólstruðu húsgögnunum verður ekki bjargað.

„Núna er ég rosalega sátt við að það sé verið að gera eitthvað í hlutunum og það sé verið að reyna koma okkur út úr þessari útilegu sem við höfum verið í síðustu daga."

Aðspurð um hvort að hún hafi ráðfært sig við lögfræðinga og fari í hugsanlegt mál við bæinn út af tjóninu sem hún hefur orðið fyrir, bæði fjárhagslega og heilsufarslega, segir hún að það sé í skoðun. „En við sögðum við þá í morgun að þetta væri ekki í þessum farvegi ef það hefði verið brugðist strax við."










Tengdar fréttir

Svartur myglusveppur étur upp heimilið

„Ég er með sveppinn í blóðinu," segir Margrét Andrésdóttir, 34 ára einstæð þriggja barna móðir á Egilsstöðum. Hún hefur nú þurft að yfirgefa heimili sitt eftir að svartur myglusveppur gerði vart við sig þar. Margrét segir sig og börnin sín hafa orðið fyrir varanlegu heilsutjóni á því að búa í húsinu. Það var Austurglugginn sem fjallaði fyrst um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×