Skoðun

Hvað er títt af Suðurnesjum?

Einu sinni, ekki svo alls fyrir löngu, var til bær á Suðurnesjum sem hét Keflavík. Þetta var fremur rólegur bær sem byggði afkomu sína að miklu leyti á bandarískum her sem var staðsettur fyrir ofan bæinn, á hinni mannskæðu Miðnesheiði.

Hin meginatvinnugreinin, sem setti mikinn svip á litla bæinn, var útgerð, rekin af miklum myndarbrag af útvegsbændum sem héldu vel utan um rekstur sinn og mannskap allan. Bæjarbragurinn varð eðlilega fyrir miklum áhrifum af veru herstöðvarinnar sem brauðfæddi stóran hluta bæjarbúa og ef fiskurinn brást mátti alltaf eiga von á því að fá vinnu á „Vellinum“.

Ekki voru þó allir sáttir við veru hans en látum það nú liggja á milli hluta í þessari frásögn. Ef litið er til þess hvernig uppbygging var á þessum tíma, út frá landbrots– og uppbyggingarsjónarmiði, þá var malarnám úr Stapafelli mikið, svo mikið að mörgum þótti nóg um, enda vil ég fremur kalla það Fellið hálfa, því það ber þess merki að hafa orðið fyrir miklum ágangi, sérlega á uppbyggingarárum flugvallarins.

Árið 1994 varð sameining sveitarfélaga á svæðinu og Keflavík sameinaðist Njarðvík og Höfnum, sem áður fyrr gekk stundum undir nafninu Hollywood. Á þeim tíma var Ellert Eiríksson bæjarstjóri þessa stóra sveitarfélags. Það tók eðlilega smá tíma að aðlaga þessi þrjú sveitarfélög hvert að öðru og er það ferli sennilega enn í fullum gangi. Uppbygging var nokkur en mikið var þó kvartað yfir því að ekki fengjust nægilega margar byggingalóðir og í máli Ólafs nokkurs Thordersen kemur fram að eitt árið hafi einungis fjórum byggingalóðum verið úthlutað. Þetta man ég sem varabæjarfulltrúi á þeim tíma.

Nú ber svo við að fátækt gerir vart við sig í Sjálfstæðisflokknum á svæðinu og menn fara um héruð og sækja mann og annan til að taka nú við þessu mikla og stóra sveitarfélagi sem var svo sannarlega efnilegt fyrir unga menn á uppleið.

Ber svo við að Þorsteinn nokkur Erlingsson sem verið hafði guðfaðir sjálfstæðismanna í Keflavík og síðar Reykjanesbæ átti engan son, þannig að það þurfti að finna kjörson í embættið, þótt yfir voga og víkur þyrfti hann að fara og það gerði hann, enda sæfari mikill og fiskinn með eindæmum. Jæja, til að gera langa sögu stutta, þá fengu Reyknesbæingar kjörsoninn Árna Sigfússon og hann kom svo sannarlega eins og prins á hvítum hesti með fallega konu og fjölskyldu og meira að segja flutti sig alfarið til bæjarins.

Eftir það fóru hlutirnir sko að gerast í Reykjanesbæ. Menn tóku strax eftir því hvað Árni hafði einstakt lag á því að vinna með Bandaríkjamönnum og hann og Davíð voru strax búnir að gera samning við bandaríska forsetann um að halda kananum á vellinum og þau boð voru látin út ganga að þeir sem kysu eitthvað annað en D myndu verða þess valdandi að herinn færi. Þetta var svo borðleggjandi dæmi að það hálfa væri nóg.

En úps! Þeir fóru og Árni setti á stofn skrifstofu til að bjarga málunum og á þessum tíma fóru menn að byggja. Þeir byggðu og byggðu, bara svona til þess að hafa eitthvað að gera og fluttu m.a. inn fullt af Pólverjum sem voru svo klárir og svona ódýrir að það hafði bara ekki annað eins sést á þessu guðs-volaða svæði.

Jæja, en Árni var ekki lengi í paradís. Þetta var nú bara nokkuð dýrt, þegar allt kom til alls. Það þurfti lóðir og rör og ýmislegt vesen. Það þurfti víst að borga brúsann. Já, en Árni fékk hugmynd ! – Selja og leigja, það var málið, alveg kjörið, já og ekki bara það, þarna, það var hægt að fá „múltí monný“ fyrir Hitaveituna. –Já, hverjum hefði dottið önnur eins snilld í hug, nema honum? Prinsinum sjálfum sem kom á hvíta hestinum alla leið frá Reykjavík.

Já og þetta er fallega útgáfan. Hin er sú að Árni og sjálfstæðis-menn í Reykjanesbæ voru svo frekir að allir hinir í litlu sveitar-félögunum vildu ekki vera með honum og hann var orðinn einn eftir með nokkra sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ, sem ekki einu sinni allir vildu vera með honum. Meira að segja þurfti hann að halda fund í fyrra þegar hann var búinn, með sínum einstaka dugnaði, að selja Hitaveituna, án þess að láta menn vita, til þess einungis að útskýra hvað þetta væri mikil snilld. Hvers vegna þurfa prinsar eins og Árni yfirleitt að útskýra það að þeir ráða? Þegar það er bara þannig.

Með öðrum orðum. Það þarf að rannsaka hvað er að gerast í Reykjanesbæ!




Skoðun

Sjá meira


×