Skoðun

AGS og hagvöxturinn

Magnús Orri Schram skrifar

Það er auðvelt að kenna AGS um stöðu íslenskra heimila og fyrirtækja nú um stundir. Slíkur málflutningur er hins vegar ósanngjarn, enda þurfum við ekki sjóðinn til að segja okkur að jafnvægi milli tekna og gjalda ríkissjóðs er forsenda endurreisnar íslenska hagkerfisins. Samvinna við AGS er raunar forsenda viðspyrnu, enda myndum við búa við enn veikari krónu og ekkert aðgengi að erlendu lánsfjármagni fyrir ríkissjóð án erlends stuðnings. Þannig væri staðan mun verri ef ekki nyti AGS við. Það er nóg að spyrja Íra sem leita nú á náðir sjóðsins.

Að mörgu leyti gengur endurreisn hagkerfisins vel. Vextir er í sögulegu lágmarki, verðbólga lítil, hreinar skuldir þjóðarbúsins á svipuðum stað og 2003 og atvinnuleysi minna en spáð var. Hagvöxtur mun hefjast á næsta ári. En engu að síður gengur hægar en við vonuðumst eftir, eins og nýjar hagvaxtartölur bera með sér. Meginástæða þess er skortur á fjárfestingu atvinnulífsins og fyrir því eru tvær ástæður helstar.

Annars vegar gengur hægt að endurreisa fyrirtækin vegna óvissu um uppgjör gengislána en „Hraðbraut" - samvinnuverkefni banka og stjórnvalda í vetur - mun vonandi breyta stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja svo þúsundum skiptir. Á hinn bóginn hefur okkur ekki tekist að laða til landsins erlenda fjárfestingu.

Þar vegur þungt andstaða sumra stjórnmálamanna við einstaka fjárfestingarverkefni og andstaða við uppgjör vegna Icesave. Lausn Icesave opnar á möguleika til erlendrar lánsfjármögnunar og deilan verður ekki leyst öðruvísi en með samningum.

Stjórnmálamenn eiga ekki að standa í vegi fyrir endurreisn atvinnulífs í skiptum fyrir vinsældir til skemmri tíma. Afleiðingar ósamlyndis innan sumra stjórnmálaflokka eru þannig betur og betur að koma í ljós, enda beint samband á milli óleysts Icesave, skorts á erlendri fjárfestingu og hagvexti næsta árs.






Skoðun

Sjá meira


×