Erlent

Hvetur Grikki til bjartsýni

Fjöldi manns mótmælti aðhaldsaðgerðum stjórnvalda í Aþenu.
Fjöldi manns mótmælti aðhaldsaðgerðum stjórnvalda í Aþenu.

„Kreppa er tækifæri,“ sagði George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, og reynir að hvetja til bjartsýni þrátt fyrir verðfall á hlutabréfamörkuðum og vantrú matsfyrirtækisins Standard & Poor‘s á fjárhagsstöðu gríska ríkisins.

„Við skulum vinna að endur­fæðingu þjóðarinnar,“ sagði hann á þingflokksfundi Sósíalistaflokks síns í gær: „Nú er að duga eða drepast.“

Fjárhagsvandræði Grikklands eru fyrir löngu komin í hnút eftir fjármálaóstjórn undanfarinna ára. Sósíalistaflokkurinn tók við vægast sagt slæmu búi af hægristjórn Kostas Karamanlis síðastliðið haust, og þarf að takast á við afleiðingarnar.

Stjórnin er nú í örvæntingarfullu kapphlaupi við tímann, því 19. maí gjaldfalla stór lán sem ríkissjóður mun engan veginn ráða við án utanaðkomandi aðstoðar.

Sameiginleg björgunaráætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fimmtán Evrópusambandsríkja var samþykkt fyrir rúmlega hálfum mánuði, en Þjóðverjar hafa þó verið tregir til, enda eiga þeir að útvega 8,4 milljarða evra af samtals 45 milljarða Evrópuhluta aðstoðarinnar við Grikki, mun hærri fjárhæð en hin Evrópuríkin.

Á fundi fulltrúa AGS með evrópskum ráðamönnum í Þýskalandi í gær var hart lagt að Þjóðverjum að skorast ekki undan, en skoðanakannanir sýna að 57 prósent Þjóðverja eru algerlega andvíg því að Þýskaland komi Grikkjum til bjargar.

Þjóðverjar eru sjálfir orðnir skuldsettari en góðu hófi gegnir. Samsteypustjórn Kristilegra og Frjálslyndra demókrata, með Angelu Merkel kanslara í fararbroddi, hefur safnað skuldum í stærri stíl en áður mun hafa þekkst í Þýskalandi síðan hún tók við völdum fyrir ári. Fjárlagahalli á þessu ári verður 80 milljarðar evra, sem er fjórðungur af útgjaldahlið fjárlaganna. Ellefu prósent fjárlaga fara nú í afborganir af skuldum.

Allt stefnir því í strangar aðhaldsaðgerðir í Þýskalandi á næstu árum til þess að greiða niður skuldirnar.

Með því að taka á sig góðan skammt af skuldasúpu Grikklands í viðbót verður áhættan orðin meiri en Þjóðverjar, sem vanir eru því að fara varlega í fjármálum, eiga auðvelt með að sætta sig við.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×