Erlent

Árása minnst vestanhafs

Trúarleiðtogi múslíma í Flórída spurði brennuklerkinn, sem var tvístígandi í gær, hvað Jesús myndi gera. nordicphotos/AFAP
Trúarleiðtogi múslíma í Flórída spurði brennuklerkinn, sem var tvístígandi í gær, hvað Jesús myndi gera. nordicphotos/AFAP
Að venju hafa Bandaríkjamenn skipulagt ýmsar minningarathafnir 11. september þetta árið, þegar níu ár eru liðin frá árás hryðjuverkamanna á landið. Meiri styr stendur þó um atburðina og ýmislegt þeim tengt þar vestra en áður.

Áform múslíma um að opna mosku í New York, rétt hjá staðnum þar sem Tvíburaturnarnir stóðu, hafa farið fyrir brjóstið á mörgum sem tengja árásirnar beint við trú múslíma.

Áform fámenns kristins safnaðar í Flórída um að brenna helgirit múslima þennan dag hafa ekki síður vakið andmæli, bæði þeirra sem óttast viðbrögð herskárra og strangtrúaðra múslíma víða um heim og hinna sem telja fráleitt að kenna múslímum almennt um árásirnar.

Barack Obama forseti ætlar að taka þátt í minningarathöfn í Pentagon, byggingu varnarmálaráðuneytisins í Washington, sem varð fyrir einni farþegaþotunni af fjórum sem hryðjuverkamenn rændu og notuðu sem árásarvopn.

Joe Biden varaforseti tekur þátt í annarri athöfn í New York, þar sem tveimur flugvélum var flogið á turna Heimsviðskiptastofnunarinnar, Tvíburaturnana, en þær Michelle Obama forsetafrú og Laura Bush, fyrrverandi forsetafrú, halda til Shanksville í Pennsylvaníu, en þar rétt hjá hrapaði fjórða farþegaþotan eftir að nokkrir farþeganna gerðu uppreisn gegn flugræningjunum.

Nokkur óvissa ríkir um hvort Terry Jones, leiðtogi fimmtíu manna safnaðar í bænum Gainesville í Flórída, lætur verða af áformum sínum um að brenna Kóraninn.

Hann gaf út tilkynningu í fyrrakvöld, eftir að Robert Gates varnarmálaráðherra hafði rætt við hann, um að hann væri hættur við. Síðar sagðist hann enn vera að hugsa málið.

Á nokkrum stöðum í Afganistan tóku samtals nokkur þúsund manns í gær, á bænadegi múslíma, þátt í mótmælum gegn áformum prestsins. Sums staðar kom til átaka og meiddust á annan tug manna.

Ekki fréttist af fjölmennum mótmælum annars staðar. Í Indónesíu, fjölmennasta múslímaríki heims, sagði klerkurinn Rusli Hasbi að Jones hefði þegar sært hjörtu múslíma hvort sem hann léti verða af brennunni eða ekki.

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×