Skoðun

Umsóknarferlið býður upp á tækifæri

Anna Margrét Guðjónsdóttir skrifar
Nú er hafið svokallað aðlögunartímabil Íslands gagnvart Evrópusambandinu sem mun vara þar til þjóðin tekur afstöðu til væntanlegs aðildarsamnings. Á þessu tímabili munum við Íslendingar eiga kost á að fá ýmiss konar aðstoð frá sambandinu og aðildarríkjum þess - aðstoð sem sumir andstæðingar ESB aðildar hafa viljað kalla þróunaraðstoð en aðrir líta á sem kærkomið tækifæri fyrir okkur til að læra af öðrum Evrópuþjóðum.

Aðlögunartímabil umsóknarríkis er sniðið að aðstæðum og óskum í hverju ríki fyrir sig. Af því leiðir að aðstoð við okkur Íslendinga verður með öðru sniði en aðstoð við Austur-Evrópuríki enda staða okkar mjög frábrugðin stöðu þeirra við upphaf aðildarviðræðna. Ekki hefur verið endanlega ákveðið með hvaða hætti stuðningi við Ísland verður háttað en fjölmargir aðilar bæði innanlands og hjá framkvæmdastjórn ESB vinna nú að gerð sérstakrar áætlunar þar um. Gengið er út frá því að aðstoðin muni skiptast í þrennt, þ.e. faglega ráðgjöf, fjárhagslega aðstoð og stuðning við þátttöku í samstarfsverkefnum. Meðal þeirra sem leggja hönd á plóg við gerð áætlunarinnar hér á landi eru ráðuneyti, sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðarins, hagsmunasamtök o.fl.

Fagleg ráðgjöf mun einkum beinast að því að aðstoða við að skipuleggja þátttöku í þeim málaflokkum sem standa utan við EES samstarfið, t.d. sjávarútvegi, landbúnaði, samgöngum, byggðamálum og svæðaþróun og umhverfisvernd. Ráðgjöfin mun fara fram hér á landi og einnig munu Íslendingar fara í læri til annarra Evrópuríkja. Fulltrúar bænda, landshlutasamtaka sveitarfélaga, stéttarfélaga, endurmenntunarmiðstöðva og atvinnuþróunarfélaga munu, svo dæmi sé tekið, hafa möguleika á að fara saman t.d. til Finnlands eða Írlands og kynna sér með hvaða hætti þarlend stjórnvöld hafa innleitt dreifbýlisstefnu Evrópusambandsins, en hún miðar að því að styrkja búsetu, efla atvinnulíf og auka menntun í dreifðum byggðum. Þá munu sveitarstjórnarmenn og aðrir hagsmunaaðilar á helsta þéttbýlissvæði landsins geta fengið að kynna sér með hvaða hætti ýmis aðildarríki hafa, með aðstoð Evrópusambandsins, stofnað þróunarsjóði um borgarsvæði og áhrifasvæði þeirra. Hér eru tvö dæmi valin af handahófi en möguleikarnir eru fjölmargir og veltur það mikið á frumkvæði hagsmunaaðila hvar verður borið niður.

Fagleg ráðgjöf á aðlögunartímabilinu mun líka snúast um það að veita íslenskum stjórnvöldum aðstoð við að undirbúa stofnanir hins opinbera til þátttöku í starfi Evrópusambandsins. Til að geta tekið þátt í uppbyggingarsjóðum ESB (e. Structural funds) þurfa aðildarríkin að gera vandaðar áætlanir til margra ára um helstu málefni, t.d. atvinnu- og svæðaþróun, samgöngur, eflingu mannauðs og menntunar o.s.frv. Þau þurfa að sýna fram á að áætlunum sé framfylgt, samræmi og samþætting sé milli þeirra og að viðhöfð sé vönduð stjórnsýsla. Áætlanagerð og staðfesta við að framfylgja þeim hefur staðið okkur fyrir þrifum og því er kærkomið að fá ráð sérfræðinga í þessum efnum. Grunnur að samþættri áætlanagerð hefur verið lagður með Sóknaráætlun 20/20 og hver sem niðurstaðan verður um aðild væri ákjósanlegt að fá sérfræðiaðstoð við að ljúka gerð hennar og þjálfun í áætlanagerð af þessum toga.

Gera má ráð fyrir fjárhagslegum stuðningi við þróunarverkefni á sviði atvinnu-, endurmenntunar- og byggðamála. Þá verður veittur ýmiss konar stuðningur til þátttöku í stórum og smáum samstarfsverkefnum með öðrum Evrópuþjóðum. Verkefnin stuðla m.a. að því að kynna Íslendingum áætlanagerð, sbr. hér að ofan og hvernig nýta megi samkeppnissjóði til að ná tilteknum markmiðum stjórnvalda.

Við Íslendingar eigum að líta á væntanlegt aðlögunartímabil sem kærkomið tækifæri til að læra og endurskipuleggja vinnubrögð okkar og byggja upp þekkingu á fjölmörgum sviðum. Þeir fjármunir sem við komum til með að fá á tímabilinu munu væntanlega koma sér vel á næstu misserum og við munum tryggja að þeim verði skynsamlega varið. Annað er ekki í boði. Ekki er að sjá að um sérstök útgjöld ríkisins verði að ræða í þessu sambandi vegna svokallaðra mótframlaga því hægt er í slíkum tilvikum að líta á framlag Evrópusambandsins sem viðbót við verkefni, sem eru á fjárlögum eða þegar fjármögnuð með öðrum hætti.

Sú þekking, reynsla og sambönd sem við komum til með að öðlast verða ekki frá okkur tekin þótt þjóðin hafni aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samþykki þjóðin hins vegar aðildina komum við sterk til samstarfs við aðrar Evrópuþjóðir þar sem við munum bæði gefa og þiggja.






Skoðun

Sjá meira


×