Erlent

Nærbuxnasprengjumaðurinn ákærður

Umar Farouk Abdulmutallab.
Umar Farouk Abdulmutallab.

Maðurinn sem reyndi að sprengja upp farþegaflugvél yfir bandarísku borginni Detroit var ákærður í gærkvöldi. Nígeríumaðurinn Umar Farouk Abdulmutallab er ákærður í sex liðum en hann reyndi að sprengja farþegaþotu með 290 farþega innanborðs í loft upp á jóladag með sprengju sem falin var í nærfötum hans.

Hann er meðal annars sakaður um að hafa reynt að nota gereyðingarvopn en hvergi í ákæruskjalinu er minnst á hryðjuverk. Málið verður tekið fyrir á föstudag og þá gefst manninum færi á að lýsa yfir sekt eða sakleysi.

Engir fleiri hafa verið ákærðir vegna málsins en dómsmálaráðherra Bandaríkjanna Eric Holder segir að rannsóknin sé enn í fullum gangi og að þegar hafi mikilvægar upplýsingar komið fram. Hann lofaði því í gær að allir sem þátt áttu í skipulagningu árásarinnar yrðu sóttir til saka og að til þess verði öll meðul notuð. Barack Obama gagnrýndi njósnastofnanir Bandaríkjanna harðlega á dögunum vegna málsins en svo virðist sem leyniþjónustur landsins hafi vitað af því að maðurinn væri mögulega hryðjuverkamaður án þess að hann væri settur á lista yfir fólk sem ekki má ferðast til bandaríkjanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×