Erlent

Talin hafa kæft börnin með plastpoka

Börnin fundust látin á hóteli á Lloret de Mar sem er vinsæll ferðamannastaður í austurhluta Spánar. Móðir þeirra er talin hafa kæft börnin.
Börnin fundust látin á hóteli á Lloret de Mar sem er vinsæll ferðamannastaður í austurhluta Spánar. Móðir þeirra er talin hafa kæft börnin.
Móðir barnanna sem fundust látin á hótelherbergi á Spáni í fyrradag hefur verið handtekin og gert að sæta geðrannsókn. Eiginmaður hennar var fyrr í vikunni framseldur til Bretlands en hann er grunaður um barnaníð.

Ellefu mánaða breskur drengur og fimm ára systir hans fundust látin í hótelherbergi á ferðamannstaðnum Lloret de Mar í austurhluta Spánar í fyrradag. Málið hefur vakið afar mikla athygli í Bretlandi og á Spáni - ekki síst fyrir þær sakir að faðir barnanna, hinn 45 ára gamli Martin Smith, var fyrr í vikunni framseldur frá Spáni til Bretlands. Hann er grunaður um að hafa níðst á þremur börnum á árunum 1995 til 2005. Alls eru ákæruliðirnir í þrettán liðum og hefur Martin verið eftirlýstur í um tvö ár. Hann var handtekinn í Barcelona fyrir hálfum mánuði.

Allt lítur út fyrir að Martin hafi farið huldu höfði á Spáni undanfarna mánuði með eiginkonu sinni Lianne og börnunum tveimur. Seinna barn þeirra, drengurinn Daniel, kom í heiminn í Bretlandi í apríl á síðasta ári.

Lianne er í haldi spænsku lögreglunnar en hún er grunuð um að hafa myrt Daniel og hina fimm ára gömlu Rebeccu. Móðurinni verður gert að sæta geðrannsókn en heimildarmenn Sky fréttastofunnar segja að allt líti út fyrir að hún hafi kæft börnin með plastpoka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×