Erlent

Vilja Thaksin aftur til valda

Krefjast nýrra kosninga Mótmælendur í Bangkok vilja fyrrverandi forsætisráðherra Thaksin Shinawatra aftur til valda.
nordicphotos/AFP
Krefjast nýrra kosninga Mótmælendur í Bangkok vilja fyrrverandi forsætisráðherra Thaksin Shinawatra aftur til valda. nordicphotos/AFP

Bangkok, ap Þúsundir mótmælenda komu saman í Bangkok, höfuðborg Taílands á sunnudag. Mótmælendurnir, sem kenndir eru við rauðar skyrtur, vilja að stjórnvöld leysi upp þingið og efni til kosninga. Þannig vonast þeir til að Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra, komist aftur til valda en hann var settur af með hervaldi árið 2006 vegna meintrar spillingar og misbeitingu valds.

Rauðu skyrturnar vilja meina að núverandi forsætisráðherra, Abhisit Vejjajiva, hafi komist ólöglega til valda með aðstoð hersins og gamalla valdastétta sem hafi óttast vinsældir Thaksins, einkum meðal fátækari stétta landsins. Lögreglan áætlaði að meira en hundraðþúsund mótmælendur hefðu safnast saman í borginni en mótmælin fóru friðsamlega fram.

Thaksin talaði til fjöldans gegnum vefmyndavél og hvatti fólk til að halda mótmælunum áfram á friðsamlegum nótum. Abhisit forsætisráðherra lýsti því yfir í útvarpssendingu í gærmorgun að hann hygðist ekki leysa upp þingið og að mótmælin yrðu ekki barin aftur með valdi.

Talsverður ótti er í Bangkok við að til átaka komi en mótmæli Rauðu skyrtanna í apríl síðastliðnum enduðu með óeirðum þar sem tveir létust og yfir 120 manns særðust. - rat




Fleiri fréttir

Sjá meira


×