Erlent

Táragasi beitt fyrir utan forsetahöllina á Haítí

Lögreglumenn að störfum í höfuðborginni í nótt. Þeir beittu kylfum og táragasi á mótmælendur.
Lögreglumenn að störfum í höfuðborginni í nótt. Þeir beittu kylfum og táragasi á mótmælendur. Mynd/AP
Lögreglumenn þurftu að beita táragasi til að dreifa mótmælendum fyrir utan forsetahöllina í höfuðborg Haítí í nótt. Mótmælendurnir kröfðust afsagnar forsetans.

Á annað þúsund mótmælendur komu saman fyrir utan forsetahöllina í höfuðborginni Port-au-Prince í nótt en aðgerðirnar voru meðal annars skipulagðar af stjórnarandstöðuflokkunum. Mótmælendurnir telja að Rene Preval, forseti landsins, hafi ekki staðið sig sem skyldi eftir jarðskjálftann í janúar og brugðist þjóð sinni. Hann hafi þess í stað nýtt neyðarástandið til að styrkja stöðu sína og reynt að lengja kjörtímabil sitt.

Talið er að allt að 300 þúsund manns hafi farist í skjálftanum sem reið yfir landið 12. janúar.

Forsetakosningar eiga að fara fram í febrúar á næsta ári en margir telja að þeim verði frestað þar sem ýmis gögn sem verða að vera til staðar glötuðust í jarðskjálftanum. Mótmælendurnir kröfðust þess að Prevel segði af. Fjölmargir köstuðu steinum að forsetahöllinni og þegar nokkrir mótmælendur brutust inn á lóðina beittu lögreglumenn kylfum og táragasi til að dreifa þeim. Ekki er vitað hvort að einhverjir slösuðust í átökunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×