Viðskipti innlent

Nýskráningum bifreiða heldur áfram að fækka

Í janúar síðastliðnum voru nýskráðir 133 bílar hér á landi sem er fækkun upp á 43% frá sama mánuði 2009. Þannig voru nýskráðir 235 bílar í janúar fyrir ári en þess má geta að þá hafði þeim fækkað um 89% frá sama tíma 2008. Þetta kemur fram í tölum sem Umferðastofan hefur birt um nýskráningar bifreiða.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þessi fækkun í nýskráningum bifreiða er í takt við þá þróun sem hefur verið hér á landi síðan við upphaf efnahagskreppunnar í febrúar árið 2008. Þó voru nýskráðar bifreiðar í desember síðastliðnum 74% fleiri en í sama mánuði 2008 sem var fyrsta aukning sem mælist yfir tólf mánaða tímabil í um tveggja ára skeið.

Var bílainnflutningur með minnsta móti á síðastliðnu ára enda minnkaði sala nýrra bíla snarlega í kjölfar bankahrunsins. Á árinu 2009 voru einungis nýskráðar 2.830 bifreiðar hér á landi en árið á undan var fjöldi þeirra 12.308. Er því að ræða um 77% samdrátt milli ára.

Þessi mikli samdráttur á nýskráningu bifreiða er einnig vel sjáanlegur í tölum um afkomu ríkissjóðs. Þannig höfðu vörugjöld af ökutækjum skilað rúmlega 77% minni tekjum á fyrstu 11 mánuðum ársins 2009 en á sama tímabili 2008. Ljóst er að veiking krónunnar spilar hér stórt hlutverk enda er þó nokkur fylgni milli gengisþróunar og fjölda nýskráninga bifreiða. Var krónan að meðaltali 25% veikari á árinu 2009 en 2008.

Þess má geta að hér er ekki tekið tillit til þeirra bifreiða sem voru afskráðar á árinu, þ.e. bifreiðar sem fluttar voru aftur út. Fór því þó nokkur fjöldi þeirra nýskráðu bifreiða á síðastliðnu ári ekki í umferð. Ef tekið er tillit til þess þá var heildarfjöldi nýskráðra bifreiða á árinu 2009 einungis 2.593 samkvæmt tölum sem Bílgreinasambandið tekur saman.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×