Erlent

Þúsundir fórust á Haiti -rústabjörgunarsveitin á leiðinni

Óli Tynes skrifar

Það tók aðeins þrjátíu sekúndur fyrir jarðskjálftann að leggja stóran hluta af höfuðborginni Port au Prince nánast í rúst í gærkvöldi en hún er aðeins um fimmtán kílómetra frá upptökunum. Skjálftinn mældist sjö komma einn á Richter kvarða.

Meðal húsa sem hrundu voru forsetahöllin, skrifstofur Alþjóðabankans, sjúkrahús og fjölmörg hótel. Eldar loga um alla borgina.

Á myndum frá borginni má sjá blóðug lík og slasað fólk liggjandi út um allt. Fólk er hvarvetna veinandi á hjálp.

Talsmaður kaþólsku kirkjunnar á Haiti sagði að þúsundir hljóti að hafa farist, eyðileggingin sé óskapleg. Björgunarstarf hófst fljótlega eftir skjálftann, en það er í mýflugumynd.

Haiti er eitt fátækasta land í Vesturheimi og almannavarnir eru veikar. Fólk notaði skóflur og haka við að reyna að grafa í rústunum og stórvirkasta vinnuvélin sem sést hefur á myndum er traktorsgrafa. Ekkert rafmagn er á borginni og fólk notaði vasaljós við að leita í rústum húsa.

Enginn veit enn hversu margir liggja grafnir undir húsarústum en miðað við eyðilegginguna eru þeir taldir skipta þúsundum. Erfitt er að komast um borgina því rústirnar loka mörgum götum.

Stjórnvöld á Haiti hafa þegar sent út neyðarkall til umheimsins. Einn sjónarvottanna er trúboðinn Joe Trimble sem sagði í viðtali við Sky fréttastofuna að mikil þörf væri fyrir þjálfaðar björgunarsveitir erlendis frá.

Þær yrðu að hafa með sér allt sem þær þyrftu til starfsins jafnvel vatn. Á Haiti væri ekkert að hafa.

Fjölmargir aðilar hafa þegar boðið fram aðstoð. Barack Obama forseti Bandaríkjanna sagði að bæði hermenn og sérþjálfaðar björgunarsveitir yrðu sendar til eyjarinnar.

Íslenska rústabjörgunarsveitin leggur af stað til Haiti fyrir hádegi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×