Erlent

Ekki þrælar heldur launafólk

Þessir menn aðstoða nú fornleifafræðinga sem hafa fundið nýjar upplysingar um smíði píramídanna. nordicphtos/AFP
Þessir menn aðstoða nú fornleifafræðinga sem hafa fundið nýjar upplysingar um smíði píramídanna. nordicphtos/AFP
Nýfundnar grafir í Egyptalandi, meira en fjögur þúsund ára gamlar, þykja sýna fram á að píramídarnir hafi ekki verið byggðir af þrælum heldur launafólki.

Grafirnar voru sýndar almenningi í fyrsta sinn í gær, en þær fundust í síðustu viku á bak við píramídana í Gísa. Nýfundnu grafirnar eru inn af grafhýsi sem fannst fyrir tæpum tuttugu árum. Grafirnar eru frá árunum 2757 til 2467 fyrir Krist, en á þeim tíma voru píramídarnir reistir í útjaðri borgarinnar Kaíró.

Zahi Hawass, yfirmaður fornleifamála í Egyptalandi, segir greinilegt að þeir sem þarna liggja grafnir hafi verið launamenn, ekki þrælar.

Allt frá því forngríski sagnfræðingurinn Herodótos sagði píramídana smíðaða af þrælum hefur sú saga víðast hvar verið viðtekin, þótt Egyptar hafi stundum reynt að malda í móinn.

Hawass segir augljóst að þeir sem liggja í gröfunum hafi ekki komið úr röðum þrælanna, sem víða voru notaðir í Egyptalandi á tímum faraóanna. Þeir hafi komið frá fátækum fjölskyldum í norðanverðu og sunnanverðu Egyptalandi og notið ómældrar virðingar fyrir störf sín. Greftrun þeirra við píramídana staðfesti það, sem og hvernig lík þeirra voru búin undir líf eftir dauðann. „Ef þeir væru þrælar hefðu þeir alls ekki fengið svona virðulega greftrun,“ segir Hawass. - gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×