Skoðun

Þúfan og hóllinn

Fréttablaðið hefur sýnt málefnum vinstri grænna mikinn áhuga á síðustu vikum. Síðast á mánudaginn birtist fréttaskýring um meintan klofning innan hreyfingarinnar og af honum eru dregnar ýmsar ályktanir, sumar ansi brattar. Lök framkvæmd?Þar er vikið sérstaklega að forvali VG í Reykjavík sem fram fór 6. febrúar sl. og fjallað um „laka framkvæmd kosninganna“. Staðreyndin er hins vegar sú að framkvæmd forvalsins var almennt til mikillar fyrirmyndar, enda einvalalið innan hreyfingarinnar sem kom þar að málum. Kjörsókn var framar vonum og raunar meiri nú en í síðasta forvali til alþingiskosninga. Í eftirleik forvalsins kom í ljós að ekki voru allir frambjóðendur fyllilega sáttir og formaður kjörstjórnar var gagnrýndur fyrir að hafa veitt misvísandi upplýsingar um meðhöndlun póstatkvæða. Til að uppstilling á lista í kjölfar forvalsins yrði hafin yfir allan vafa tók forvalsstjórn ekki við því starfi, eins og hefð er fyrir, og því verður ný uppstillingarnefnd skipuð. Í þessu fólst engin yfirlýsing um að framkvæmd forvalsins hefði verið „lök“, enda ríkti almenn ánægja innan stjórnar VG með forvalsstjórnina og störf hennar. Steingrímur og ÖgmundurÍ sömu fréttaskýringu er miklu púðri eytt í þær kenningar að Vinstri græn sé klofin og að félagsmenn fylgi annað hvort Steingrími J. Sigfússyni eða Ögmundi Jónassyni að málum. Kenningarnar ganga út á það að allt umrót innan VG megi rekja til valdabaráttu á milli þeirra tveggja. Jafnvel hversdagslegur misskilningur á milli borgarfulltrúans Sóleyjar Tómasdóttur og varaborgarfulltrúans Hermanns Valssonar hefur verið talinn til marks um spennuna sem ríki á milli fylkinga. Í fjölmiðlum var fjallað um „skoðanakúgun“ og „átök“ þegar um var að ræða einfaldan misskilning. Þannig hefur verið mjög lærdómsríkt að fylgjast með því undanfarið – bæði í fjölmiðlum og á bloggsíðum – hvernig reynt er að skipa fjölmörgum félögum í VG á bása, annaðhvort með Steingrími og á móti Ögmundi – eða öfugt.

Hvaðan slíkar sögur eru sprottnar veit ég ekki, en þegar talað er um Sóleyju Tómasdóttur og undirritaðan sem hluta af Steingríms-arminum, jafnvel Svavars-arminum (svo dæmi séu tekin) þá þykir mér helst til langt seilst í lestri á hinu pólitíska landslagi. Ég hef starfað mikið innan VG í rúmt ár og kynnst ótal félagsmönnum á þeim tíma. Fæstir þeirra gefa mikið út á þessa skiptingu, enda flestir almennt ánægðir með bæði Steingrím og Ögmund og áherslur þeirra, þótt hvorugur sé hafinn yfir gagnrýni. Kynslóðaskipti og ný staða

Fyrir mér er skoðanaágreiningur innan VG augljós og ekkert til að fara í grafgötur með. Sá ágreiningur stafar af hins vegar af öðrum sökum en þeim að Steingrímur og Ögmundur takist á bak við tjöldin. Fyrir það fyrsta stækkar hreyfingin hratt og öðlast breiðari skírskotun á meðal landsmanna, eins og fylgisaukning síðustu ára sýnir. Það þýðir að í hreyfinguna bætast nýir einstaklingar sem vilja starfa og hafa áhrif. Þeir eru gjarnan í yngri kantinum og sumir hafa aðrar áherslur en þeir sem lengur hafa starfað. Í öðru lagi er hreyfingin í þeirri nýju stöðu að halda um stjórnartaumana í landinu, sem þar að auki er í skugga efnahagshrunsins. Í þriðja lagi hefur hún þurft að fara í gegnum flókin og erfið mál sem hafa reynst henni erfið. Hér er auðvitað átt við ESB-umsóknaraðild og Icesave-arfleifðina frá fyrri ríkisstjórn – mál sem hafa sannarlega valdið deilum í þingflokki VG sem og meðal allra félagsmanna.

Engin ástæða er til að hafa áhyggjur af því að tekist sé á innan Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, rétt eins og innan allra annarra stjórnmálaflokka. Þá fyrst væri ástæða til að hafa áhyggjur af VG ef almennir félagsmenn færu að trúa ýktum sögum um meintar fylkingar Steingríms og Ögmundar, enda hafa fæstir þeirra sem virkir eru í félagsstarfinu áhuga á að láta draga sig í dilka. Hér er ágætt að minna sig á að félagsmenn í VG skipta þúsundum, virkir félagar í flokksstarfinu skipta hundruðum, og samtakamáttur þeirra er miklu meiri en svo að dulítill hristingur í fjórtán manna þingflokki nái að breyta þúfu í hól og valda almennum klofningi. Við erum vön því að takast á, við erum vön því að vera ósammála, við erum vön því að þora að skammast í flokks­forystunni. Og við það situr.

Höfundur er formaður VG í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×