Erlent

Trúboðar ákærðir fyrir barnsrán á Haítí

MYND/AP

Stjórnvöld á Haítí hafa ákært tíu bandaríska trúboða fyrir mannrán en þau eru sökuð um að hafa ætlað að smygla 33 börnum úr landinu. Ef trúboðarnir verða sakfelldir gætu þau átt yfir höfði sér langa fangelsisdóma. Fólkið var stöðvað á landamærum Dóminíska lýðveldisins á föstudaginn var og þá sögðust þau vera að flytja börnin á munaðarleysingjahæli þar í landi. Síðar kom í ljós að sum barnanna voru alls ekki munaðarlaus.

Trúboðarnir hafa verið í haldi í höfuðborginni Port au Prince frá því upp um þá komst. Leiðtogi trúboðanna sem flestir eru frá Idaho í Bandaríkjunum, Laura Silsby, segir að hópurinn hafi hitt prest frá Haítí sem hafi komið þeim í samband við börnin. Hún viðurkenndi að ekki hafi verið farið eftri löglegum leiðum þegar börnunum var safnað saman en að trúboðarnir hafi aðeins borið hag barnanna fyrir brjósti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×