Erlent

Nokkur sjávarþorp jöfnuðust við jörðu

Komu sér fyrir úti á götu Þessir tveir menn í borginni Talcahuano fengu sér sopa úti á götu þar sem eyðileggingin blasir við.
Nordicphotos/AFP
Komu sér fyrir úti á götu Þessir tveir menn í borginni Talcahuano fengu sér sopa úti á götu þar sem eyðileggingin blasir við. Nordicphotos/AFP

Meðan björgunarsveitir unnu baki brotnu við að leita að fólki á lífi í rústum húsa voru hersveitir sendar til þess að stöðva þjófnað úr verslunum á jarðskjálftasvæðunum í Chile.

Hamfarirnar bitnuðu illa á íbúum borgarinnar Concepcion, sem er næststærsta borg landsins. Nokkur sjávarþorp urðu einnig mjög illa úti, og nánast jöfnuðust við jörðu eftir að hafa fyrst orðið fyrir jarðskjálftanum snemma á laugardagsmorgun og síðan mikilli flóðbylgju sem skjálftinn hratt af stað.

Krafturinn í flóðbylgjunni var það mikill að heilu húsin lyftust af grunni og bárust lengra inn á landið, en önnur hús molnuðu hreinlega í sundur.

Francisco Vidal, varnarmálaráðherra landsins, viðurkenndi að það hefðu verið mistök að gefa ekki þegar í stað út flóðaviðvörun eftir skjálftann, því aðeins hálftími leið frá skjálftanum þangað til flóðbylgjan skall af fullum krafti á strandbyggðunum.

Alls er talið að ein og hálf milljón heimila hafi skemmst illa eða gjöreyðilagst. Í gær var staðfest að rúmlega sjö hundruð lík væru fundin, en talið var fullvíst að sú tala myndi hækka verulega.

Skjálftinn mældist 8,8 stig og telst með þeim allra stærstu sem orðið hafa það sem af er þessari öld.

Tíðir eftirskjálftar töfðu björgunarstörf og urðu til þess að fjöldi fólks hafðist frekar við úti á götum en inni í húsum, sem þó höfðu sloppið óskemmd.

„Ef maður er inni í húsinu sínu þá hreyfast húsgögnin úr stað,“ sagði Monica Aviles, kona sem hafði vafið sig þykku sjali til að verjast kuldanum þar sem hún sat við eld sem kveiktur hafði verið úti á götu skammt frá heimili hennar.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×