Erlent

Yfir 600 fornmunir fundust á skrifstofu forsætisráðherra Íraks

Yfir 600 fornmunum hefur verið skilað á Þjóðminjasafn Íraks en þessir munir fundust í kössum á skrifstofu Nouri al-Maliki forsætisráðherra landsins.

Samkvæmt frétt á BBC hefur þessum gripum verið smyglað til Bandaríkjanna á liðnum árum en þeim var skilað í fyrra. Eftir það spurðist ekkert til þeirra fyrr en nú.

Margir af gripunum eru þúsundir ára gamlir en talið er að þeim hafi verið rænt í landinu í kjölfar upplausnarinnar sem ríkti þar eftir stríðið árið 2003.

Ekki liggur ljóst fyrir með hvaða hætti gripirnir enduðu á skrifstofu forsætisráðherrans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×