Skoðun

Réttindi lýðs og þjóðar

Eiríkur Bergmann skrifar

Í stjórnlagaþingskjörinu hef ég lagt fram sex áhersluatriði sem ég myndi vilja taka til umræðu. Ég tek fram að hér er ekki um að ræða háheilagan kröfulista heldur þau málefni sem mér finnst að stjórnlagaþingið eigi að ræða með opnum hug.

Í fyrsta lagi að kjósa ríkisstjórn beinni kosningu, í öðru lagi að opna fyrir persónukjör, í þriðja lagi að beita þjóðaratkvæðagreiðslum í auknu mæli, í fjórða lagi að afnema kjördæmaskiptinguna, í fimmta lagi að skoða það í fúlustu alvöru að lækka kosningaaldurinn í sextán ár og loks að semja alhliða réttindaskrá fyrir borgara þessa lands sem hér er tekið til skoðunar.

Samhliða stjórnarskrárvinnunni væri gráupplagt fyrir stjórnlagaþingið að útbúa sérstaka borgaralega réttindaskrá, semsé til viðbótar við hefðbundin mannréttindaákvæði. Góð stjórnarskrá á að vera skýr, skorinorð og auðskiljanleg öllum læsum mönnum. Framsæknustu stjórnarskrár heims, eins og til að mynda sú þýska og suður-afríska, byrja á almennri yfirlýsingu um grunngildi, til að mynda um virkt lýðræði og þess háttar og svo kemur ítarlegur kafli um mannréttindi áður en stjórnskipan ríkisins er lýst.

En auk hefðbundinna mannréttindaákvæða myndi ég vilja taka til alvarlegrar umræðu að í stjórnarskrá yrði enn fremur vísað í mun víðfemari skrá um borgaralegt réttindi, svo sem um sanngjarna meðferð mála hjá hinu opinbera. Leita má fyrirmynda í Bill of Rights í Bandaríkjunum og Charter of Fundamental Rights í Evrópu. Slík skrá þyrfti ekki endilega að vera formlegur hluti stjórnarskrárinnar heldur hugsanlega sér plagg sem stjórnarskráin vísar í og eykur þar með gildi þess umfram venjuleg lög.






Skoðun

Sjá meira


×