Erlent

Fundar með Ísraelum og Palestínumönnum

George Mitchell. Mynd/AFP
George Mitchell. Mynd/AFP
George Mitchell, sérstakur erindreki Bandaríkjastjórnar í málefnum Mið-Austurlanda, er á leið Ísraels og Palestínu. Hann hyggst reyna hvað hann getur til að fá Ísraela og Palestínumenn til að setjast á nýjan leik við samningaborðið.

Samskipti Bandaríkjamanna og Ísraela hafa verið afar stirð frá því að ráðamenn í Ísrael tilkynntu í síðasta mánuði um byggingu 1600 nýrra íbúða gyðinga í austurhluta Jerúsalem. Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, var þá í þriggja daga heimsókn á svæðinu og skyggði tilkynningin á heimsókn hans en vonir voru bundnar við að hún yrði til þess að Ísraelar og Palestínumenn hæfu friðarviðræður á nýjan leik. Palestínumenn vilja að austurhluti borgarinnar verði höfuðborg sjálfstæðrar Palestínu. Ákvörðun ísraelskra yfirvalda að leyfa byggingu íbúðanna hefur víða verið mótmælt. Arababandalagið, Evrópusambandið, Bretar og Frakkar leggjast alfarið gegn fyrirhuguðum framkvæmdum.

Ekki liggur fyrir hvern Mitchell mun hitta í Ísrael. Á morgun heimsækir hann Vesturbakkann og fundar með leiðtogum Palestínumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×