Erlent

Nauðgarar í hópum um Port au Prince

Óli Tynes skrifar
Því miður má lögreglan sín lítils gegn 7000 glæpamönnum sem fara um í skjóli nætur.
Því miður má lögreglan sín lítils gegn 7000 glæpamönnum sem fara um í skjóli nætur. Mynd/AP

Þegar jarðskjálftinn reið yfir Haítí sluppu yfir sjöþúsund glæpamenn úr fangelsum í höfuðborginni Port au Prince.

Ríkislögreglustjóri landsins segir að það hafi tekið fimm ár að koma þeim öllum í fangelsi en nú leiki þeir lausum hala. Margir þeirra eru hættulegir ofbeldismenn.

Glæpamennirnir virðast hafa skipt sér í hópa sem ferðast vítt og breitt um borgina. Og því miður er það við kjör-aðstæður.

Það er nánast alveg rafmagnslaust í Port au Prince. Þar virka til dæmis engin götuljós. Lögregla borgarinnar er líka nánast óvirk enda fórust eða týndust þúsundir þeirra í skjálftanum.

Það er því lítil fyrirstaða fyrir glæpamennina og það nota þeir sér til hins ítrasta. Hundruð þúsunda fórnarlamba jarðskjálftans búa nú í tjaldbúðum í og við höfuðborgina.

Þar er engin öryggisgæsla og þangað leita glæpamennirnir eftir myrkur. Bæði til þess að ræna fólk og til þess að nauðga konum.

Lögreglustjórinn segir að þeir hafi engar tölur yfir slíka glæpi, enda eru innviðir landsins í rúst og enginn staður þar sem hægt er að kæra árásir.

Kvennasamtök eru þó að taka saman lista og hafa vakið athygli Sameinuðu þjóðanna á vandanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×