Skoðun

Hvar situr barnið þitt?

Þóra Magnea Magnúsdóttir fræðslufulltrúi hjá Umferðarstofu skrifar
Á hverju ári slasast yfir 20 börn, sex ára og yngri, sem eru farþegar í bílum. Með réttum öryggisbúnaði hefði verið hægt að koma í veg fyrir mörg þessara slysa og draga verulega úr áverkum í öðrum. Umferðarstofa og Slysavarnafélagið Landsbjörg könnuðu í maí sl. öryggi leikskólabarna í bílum. Könnunin var gerð við 75 leikskóla víða um land og var öryggisbúnaður 2.660 barna skoðaður. Könnun sem þessi hefur verið framkvæmd hér á landi frá árinu 1996 og á svo víðtæk könnun sér ekki hliðstæðu í öðrum löndum. Óhætt er að segja að á undaförnum árum hafi mikið áunnist í öryggismálum barna í bíl. Á fyrstu árum könnunarinnar var öryggisbúnaður barna í bíl óásættanlegur en ljóst er að hugarfarsbreyting hefur orðið í þessum efnum þótt enn vanti töluvert á að hægt sé að segja að ástandið sé viðunandi.

Í ár kom í ljós að einungis 9,8% barnabílstóla voru bakvísandi en mun öruggara er fyrir barn yngra en þriggja ára að nota bakvísandi barnabílstól. Höfuð barns á þessum aldri er hlutfallslega stórt og þungt og hálsliðir þess ekki fullþroskaðir. Við árekstur eru minni líkur á alvarlegum áverkum á mænu og heila ef barn er í bakvísandi barnabílstól. Í könnuninni kom einnig í ljós að 10,8% barna voru í engum búnaði eða einungis í öryggisbelti. Þetta er nokkru betri útkoma en í fyrra þegar 12,8% barna voru í engum búnaði eða einungis í öryggisbelti.

Öruggara er að barn noti bílstól eða bílpúða þar til það er orðið 10 til 12 ára (36 kg). Beinagrind barns er ekki orðin nægilega þroskuð til að þola það átak sem myndast af hefðbundnu öryggisbelti við árekstur. Ef beltið situr ekki rétt getur það jafnframt veitt alvarlega áverka á kviðarholi. Loks ber að nefna að barn sem er lægra en 150 sm á hæð má ekki vera farþegi í framsæti bifreiðar sem búin er uppblásanlegum öryggispúða fyrir framan sætið og því alltaf öruggara fyrir það að sitja í aftursæti. Í þessu sambandi skiptir engu þótt barnið sé í barnabílstól eða með annan viðeigandi öryggisbúnað. Höggið sem öryggispúðinn gefur þegar hann springur út getur leitt barn til dauða þó hann veiti fullorðnum öryggi. Í könnuninni sem gerð var nú í ár voru 20 börn í framsæti fyrir framan virkan öryggispúða, þar af voru 13 eingöngu með bílbelti en 3 laus. Þetta er heldur betri útkoma en í fyrra.

Öryggisbúnaður barna í ökutækjum skal uppfylla kröfur samkvæmt reglum efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu. En þegar nýr barnabílstóll er keyptur er einnig nauðsynlegt að athuga hvort hann passi í bílinn og henti barninu. Gott er að láta barnið máta búnaðinn og hafa ber í huga að betra er að gera það þegar barnið er óþreytt. Endingartími barnabílstóla er 6-8 ár en eiginleikar þeirra efna sem notuð eru í stólana breytast með tímanum. Ekki má nota stól sem orðið hefur fyrir hnjaski eða skemmdum. Nánari upplýsingar um öryggi barna í bílum má finna á heimasíðu Umferðarstofu www.us.is og í bæklingnum Öryggi barna í bíl en í honum má finna upplýsingar um flokkaskiptingu öryggisbúnaðar barna í bíl. Einnig má senda fyrirspurn á fraedsla@us.is.






Skoðun

Sjá meira


×