Viðskipti innlent

Endurskipulagning Farice framlengd til 1. apríl

Samkomulag það sem Eignarhaldsfélagið Farice ehf. og kröfuhafar þess gerðu í desember 2009 hefur verið framlengt til 1. apríl n.k.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að samkomulagið feli sem fyrr í sér að félagið fær frest út samningstímann til að greiða eða semja um gjaldfallnar afborganir.

Eignarhaldsfélagið Farice ehf. hefur að undanförnu unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu á félaginu í samstarfi við kröfuhafa og aðra hagsmunahafa félagsins með aðstoð ráðgjafa.

Farice hf., dótturfélag Eignarhaldsfélagsins Farice ehf hefur einnig gerst aðili að samkomulagi við helstu kröfuhafa sína um frest til 1. apríl n.k. til að greiða eða semja um gjaldfallnar afborganir.

Alls voru um níu milljarðar af heildarskuldum Farice í vanskilum um síðustu áramót. Skuldirnar í heild nema 113,8 milljörðum evra eða tæplega 20 milljörðum kr.

Í tilkynningu frá því um áramótin segir að 98,5% af kröfuhöfum félagsins vinni með félaginu að endurskipulagningu þess.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×