Erlent

Ráðamenn í Bretlandi saka Google um að ógna þjóðaröryggi

Varðturn SAS?
Varðturn SAS?

Ráðamenn í Bretlandi eru æfir út í Google fyrirtækið fyrir að birta myndir af höfuðstöðvum og æfingasvæði bresku sérsveitarinnar SAS á svokölluðu Google-götukorti.

Leitarrisinn hefur boðið upp á þessa þjónustu í talsverðan tíma en nú er komið í ljós að það er hægt að skoða nokkuð ítarlega höfuðstöðvar bresku sérsveitarinnar úr heimatölvum. Þess má geta að stöðin er ekki merkt inn á nein kort af öryggisástæðum.

Þingmaðurinn Paul Keetch segir aðganginn sem Google veitir heiminum að æfingasvæði SAS vera beinlínis ógn við þjóðaröryggið. Hann segir höfuðstöðvarnar mun viðkvæmari fyrir hryðjuverkaárásum vegna þessa.

Á myndunum má meðal annars sjá öryggisverði taka á móti sjúkrabíl við aðalhlið höfuðstöðvanna en andlit þeirra eru ekki sýnd. Þá eru allnokkrar myndir af húsinu sjálfu.

Forsvarsmenn Google eru ekki sammála bresku ráðamönnunum og segja myndirnar eingöngu sýna það sem vegfarandi sem ætti leið hjá gæti séð. Því er vandséð hvernig myndbirtingin á götukortinu dragi úr öryggi höfuðstöðvanna.

Þeir segjast þó tilbúnir að ræða málið. Forsvarsmenn hersins eru aftur á móti tregir til þess að staðfesta að þarna sé í raun æfingasvæði og höfuðstöðvar SAS.

Í því ljósi er sennilega erfitt að ná einhverskonar samkomulagi vegna myndanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×