Erlent

Heilbrigðisfrumvarp Obama naumlega samþykkt

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í nótt með naumum meirihluta nýtt heilbrigðisfrumvarp sem Obama forseti hefur barist fyrir að koma í gegn.

Frumvarpið var samþykkt með 219 atkvæðum gegn 212 eftir mikið þjark. Allir þingmenn Repúblikana voru á móti og hafa þeir heitið því að berjast áfram gegn áætlununum sem eiga að gjörbreyta bandaríska heilbrigðiskerfinu. Búist er við því að Barack Obama forseti skrifi undir frumvarpið eins fljótt og auðið er en hann hefur barist fyrir breytingum á kerfinu frá því hann komst í embætti.

Frumvarpið gerir það að verkum að 32 milljónir manna fá nú aðgang að heilbrigðiskerfinu sem ekki höfðu það áður og er þetta stærsta breyting á bandaríska heilbrigðiskerfinu í áratugi. Repúblikanar hafa hins vegar barist hatrammlega gegn frumvarpinu sem þeir segja að sé allt of dýrt og feli í sér að ríkið sé að taka yfir heilbrigðisiðnaðinn.

Frumvarpið fór í gegn með þriggja atkvæða meirihluta en það þýðir að 34 demókratar kusu gegn breytingunum. Þeir sem það gerðu eru sagðir óttast um sæti sitt í kosningunum sem fram fara í Nóvember en á sumum svæðum í Bandaríkjunum hefur frumvarpið mætt mikilli ansdstöðu almennings.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×