Skoðun

Sparnaðarvirkjun

Þorsteinn I. Sigfússon skrifar
Næsta orkubylting á Íslandi gæti hafist í fyrramálið. Hún hefur legið í loftinu um hríð en tafist vegna þess að flókið niðurgreiðslukerfi rafmagns til húshitunar hefur haft letjandi áhrif. Yfir einn milljarður fer úr ríkissjóði árlega í þessa latningu. Á þessu áttaði ég mig endanlega þegar við fórum með námskeiðin Orkubóndann um landið sl. vetur.

Hér er um að ræða notkun varmadæla á stöðum þar sem ekki er nægur jarðhiti til beinnar húshitunar. Varmadælur eru athyglisverð tækni og aldagömul; það var sjálfur Kelvin lávarður sem fann þær upp á sínum tíma.

Þær virka svipað og öfugur ísskápur; sækja varma í stóra varmalind, sem ekki þarf að vera mjög heit – getur til dæmis í Vestmannaeyjum og Ísafirði verið Atlantshafssjórinn. Varmadælan flytur þennan varma inn í t.d. híbýli sem þarf að hita og skilar honum á töluvert hærra hitastigi. Til þess að gera þetta kleift þarf dælan rafmagnsafl ekki ósvipað og ísskápur.

Á Íslandi eru í dag rafskauta-katlar á stöðum þar sem fjarvarmaveita er hituð með rafmagni. Uppsett afl þeirra er um 50MW. Annað eins afl er uppsett í olíukötlum með tilheyrandi mengun og útblæstri.

Með hugmyndinni um næstu orkubyltingu á Íslandi yrði vinna hafin við að setja upp varmadælur á einum af tólf stöðum á landinu. Þrír þeirra hafa ekki fjarvarmaveitu og þar mætti hefja undirbúning slíks mannvirkis.

Varmadælurnar kalla á borun, oftast grunna borun sem hentaði borfyrirtækjum sem nú eru án verkefna og í miklum rekstrarerfiðleikum. Varmadælurnar mætti kaupa með sérstökum útboðum, og nýta mikla verkfræðiþekkingu aðila eins og ÍSOR og íslensku verkfræðistofanna til þess að útfæra það.

Varmaveitukerfi eru íslensk sérgrein; átak í þeim væri til þess fallið að hvetja vinnu um allt land, sem snerta myndi margar iðngreinar og vinnandi hendur.

Varmadæluveitur kosta kannski um 100 kr. á hvert watt uppkomnar, þar af eru varmadælurnar kannski um helmingur. Það þýddi t.d. að varmadælukerfi á Patreksfirði gæti kostað um einn milljarð króna og tækin fyrir Vík í Mýrdal þriðjung af því.

Ávinningurinn yrði í raun að raforka sparaðist og það í tugum megawatta. Varmadælubyltingin gæti orðið að stærðargráðu sem jafna mætti við nýja virkjun! Ef enn lengra yrði gengið mætti koma til móts við mikla mengun samfara varaaflstöðvum í kötlum sem brenna olíu.

Nú í kreppubotni er lag til þess að hugsa aftur stórt á Íslandi. Samnýtum jarðhita og raforku til þess að nýta jarðvarmann okkar enn betur og reisa í raun nýja virkjun – hina sönnu sparnaðarvirkjun!



Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×