Skoðun

Nauðsynlegt átak

Birkir Hólm Guðnason skrifar
Icelandair, sem lagði um fimmtung, eða 125 milljónir króna, til markaðsátaksins Inspired by Iceland, telur þeim fjármunum hafa verið vel varið í ljósi reynslu undanfarinna mánaða. Icelandair telur að kynningarátak fyrir Ísland hafi vegna stöðunnar í apríl/maí í vor verið nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir hrun í ferðaþjónustunni, og að staðan nú sýni að nokkuð vel hafi til tekist.

Rifja verður upp að áður en eldgosið í Eyjafjallajökli olli mestu truflunum í flugsamgöngum í heimssögunni var staða flugbókana til Íslands mjög góð og stefndi í metfjölda ferðamanna til landsins. Við gosið hættu ferðamenn að bóka Íslandsferðir og útlitið breyttist til hins verra. Tap þjóðarbúsins af þeim sökum stefndi í að nema tugum milljarða króna. Í þeirri stöðu var óverjandi, bæði fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og hið opinbera, að aðhafast ekkert. Nauðsynlegt var að koma þeim skilaboðum til umheimsins að óhætt væri að koma til Íslands og að eldgosið ógnaði ekki öryggi ferðamanna hér á landi.

Valið stóð um að allir helstu hagsmunaaðilar færu hver sína leið eða þeir sameinuðust um skilaboð og að ná sem bestri nýtingu fjármuna. Iðnaðarráðuneytið hvatti eindregið til þess að reynt yrði að ná samstöðu í greininni og Icelandair lét ekki sitt eftir liggja. Kallaðir voru til fjölmargir innlendir og erlendir ráðgjafar auk þess sem nýtt var sú sérfræðiþekking sem er innan fyrirtækjanna í ferðaþjónustunni til þess að ná sem bestum árangri – velja m.a. fjölmiðla og aðrar dreifileiðir með hliðsjón af markhópum. Af eðlilegum ástæðum hefur aðeins lítill hluti þessa kynningarefnis komið fyrir sjónir Íslendinga, en landsmenn tóku myndarlegan þátt í átakinu þann 3. júní sl. með sendingum til vina og vandamanna erlendis.

Fram hefur komið að ferðamönnum til landsins fækkaði verulega í apríl og maí, en í júní hefur orðið umtalsverð breyting til batnaðar og fjöldinn er sambærilegur við það sem var á síðasta ári skv. tölum Ferðamálastofu. Það verður að teljast góður árangur miðað við það sem stefndi í á tímabili, þó það sé undir því sem vonast var til fyrir gosið. Gera má ráð fyrir að ferðamenn verði eitthvað færri í júlí og ágúst en á síðasta ári, en miðað við stöðuna núna og reynslu Icelandair af kynningarherferðum má búast við góðu hausti í ferðaþjónustunni. Við höfum m.a. bætt við flugáætlun okkar í október með hliðsjón af þróun mála og erum á árinu að auka flug okkar um 13% frá síðasta ári.

Reynsla okkar sýnir ennfremur að stórar kynningarherferðir hafa áhrif í nokkra mánuði eftir að þeim lýkur og til lengri tíma styrkir herferðin ferðaþjónustuna án efa mjög mikið. Icelandair myndi styðja það að fylgja verkefninu eftir á haustdögum til að efla ferðamannastrauminn yfir vetrartímann.

Það er í besta falli flókið og í versta falli alveg ómögulegt að leggja nákvæmt mat á árangur af kynningarherferð sem þessari, en ég hygg að þær 700 milljónir sem lagðar voru í verkið skili sér margfalt til baka, bæði til einstakra fyrirtækja sem lögðu í það fé og til þjóðarbúsins í heild.



Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×