Erlent

Samkynhneigðir ganga ekki í hjónaband -Danmörk

Óli Tynes skrifar
Birthe Rönn Hornbech kirkjumálaráðherra Danmerkur.
Birthe Rönn Hornbech kirkjumálaráðherra Danmerkur.

Kirkjumálaráðherra Danmerkur íhugar að láta kirkjunni eftir að setja ramma um skráða sambúð fólksins í landinu.

Birthe Rönn Hornbech tekur þó fram að þar verði ekki um hjónaband að ræða. -Það stendur nefnilega í vígslutextanum að mannkynið hafi verið skapað sem maður og kona. Og það er engin lygi segir ráðherrann við Ritzau fréttastofuna.

Hornbech segir að hún muni í vor ræða þetta mál við það sem hún kallar lykilpersónur innan kirkjunnar, áður en hún tekur endanlega ákvörðun.

Það var kirkjan í Hylteberg utan við Kaupmannahöfn sem kom umræðunni af stað. Safnaðarstjórnin sendi ráðherranum bréf og bað um leyfi til þess að vígja samkynhneigð pör.

Ungliðar í flokki Hornbech, Venstre eru ekki sáttir við afstöðu hennar. Þeir telja hana ekki í samræmi við áherslur flokksins á jafnræði og réttindi einstaklinga.

Biskupar landsins eru reiðubúnir að taka málið til umræðu en þeir eru mjög skiptir í skoðunum sínum um hvort samkynhneigðir geti gengið í hjónaband.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×