Viðskipti innlent

Aðalhagfræðingur: Forseti Íslands skýtur sig í fótinn

Harald Magnus Andreassen aðalhagfræðingur First Securites í Noregi segir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti íslands sé að skjóta sig í fótinn með því að gagnrýna Norðmenn fyrir að styðja ekki við bakið á Íslendingum. Það sé stundarbrjálæði að reyna að varpa einhverri sök á Norðmenn.

„Það er brjálæði að Íslendingar séu að varpa sök á Norðmenn. Forsetinn er að hengja bakara fyrir smið," segir Andreassen í samtali við vefsíðuna e24.no. „Noregur eða önnur lönd bera engar skyldur gagnvart Íslendingum. Hverjir aðrir en Íslendingar eiga að bera tapið? Þeir eru einir um að bera ábyrgðina á þeim mistökum sem gerð hafa verið."

Andreassen bendir á að íslensk stjórnvöld ákváðu að bjarga sínum eigin innistæðueigendum með því að taka á sig tapið af hruni íslensku bankanna. Hollenskir og breskir innistæðueigendur með Icesave reikninga hafi ekki enn fengið sitt tap borgað.

„Eitt er að ræða um vexti og lánaskilmála. En þeir (Íslendingar) geta ekki vænst þess að Bretar, Hollendingar eða Norðmenn...skuli bera tapið meðan Íslendingar bjarga aðeins sínu fólki," segir Andreassen.

Orð Andreassen koma í framhaldi af því að forseti Íslands hefur ásakað hinar Norðurlandaþjóðirnar, og þá einkum Norðmenn, um að draga lappirnar í að aðstoða Íslendinga með því að krefjast þess að Icesave deilan leysist áður en lán þeirra verði veitt til Íslands. Þessi ummæli hafa vakið mikla athygli á hinum Norðurlöndunum og er forsetinn víða harðlega gagnrýndur fyrir þau.

Andreassen bendir á að Íslendingar hafi gert sín eigin mistök með því að leyfa hagkerfi sínu að blása út. „Það voru margir sem gærddu á þessu um langan tíma, ekki bara 30 til 40 bankastjórnendur," segir hann.

Ennfremur bendir Andreassen á að tæplega 90% af eignum Landsbankans muni fást upp í Icesave skuldina og það sem Íslendingar þurfi að greiða nemi aðeins um fjórðungi af heildarskuldinni upp á um 30 milljarða norskra kr. „Það er reiknað með að hin endanlega upphæð muni nema um einu prósenti af landsframleiðslunni í 30 ár. Þrátt fyrir að það sé ergilegt er samt um smápeninga að ræða í raun," segir Andreassen.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×