Skoðun

Leikur að eldi?

Ofvirkni eða ADHD er kvilli sem hrjáir um það bil 5% þjóðarinnar. Einkennin lýsa sér fyrst og fremst í skorti á einbeitingu, óhóflegri hvatvísi og meiri hreyfiþörf en almennt gerist. Afleiðingarnar, sé ekki veitt viðeigandi meðferð geta verið hrikalegar, t.d. er einstaklingum með ADHD er hættara en öðrum til að leiðast út í misnotkun af ýmsu tagi, þeir flosna oft upp úr námi og eiga í ýmsum erfiðleikum í einkalífi sem rekja má beint og óbeint til ofvirknieinkennanna.

Flest þau lyf sem gefin eru ofvirkum, bæði fullorðnum og börnum, innihalda virka efnið methylphenidate, þessi lyf eru seld hér á landi undir vörumerkjunum Concerta, Ritalin Uno og Ritalin. Ritalin heyrir raunar sögunni til. Næstum öll börn og fullorðnir með ADHD sem undirritaður þekkir hér á landi eru á tveimur fyrstnefndu lyfjunum eða lyfinu Strattera.

Notkun þessara lyfja hefur aukist hér á landi líkt og annars staðar í hinum vestræna heimi. Þeim er ávísað í kjölfar vandaðrar greiningar sem fer fram í samstarfi sálfræðinga og lækna. Mesta aukningin á lyfjagjöf stafar af því að í ljós hefur komið að einnig er þörf á lyfjagjöfinni á fullorðinsárum hjá um það bil 40% þeirra sem fá greininguna á barnsaldri. Einnig eru vísbendingar um að ofvirkum sé að fjölga en ekki er vitað hvers vegna. Sennilegt er að lyfjagjöfin sé m.a. að aukast vegna þess að æ fleiri fara eftir því sem ráðlagt er, það er vitað út frá fræðunum að bestur árangur næst í meðferð ofvirkra þegar beitt er samhliða markvissum uppeldisaðferðum, sem kennd hafa verið þúsundum íslenskra foreldra og kennara á uppeldisnámskeiðum, og hins vegar viðeigandi lyfjameðferð.

Áhrifin af lyfjagjöfinni á einstaklinga með ADHD eru skýr og óumdeild: Í 60-80% tilfella dregur úr hvatvísi og ofvirkni samhliða því að einbeiting eykst. Fyrir börn á grunnskólaaldri með ADHD á viðeigandi lyfjameðferð þýðir þetta á mannamáli að þeim vegnar betur í námi, gengur betur félagslega og minni hætta er á því að þau leiðist út slæman félagsskap og fíkniefnamisnotkun.

Þegar talað er illa um lyfjameðferð er því gjarna haldið á lofti að þar sem fíklar misnoti ofvirknilyf hljóti börn og aðrir sem eru á lyfjunum að verða fíklar líka og að stórhættulegt sé þess vegna að gefa börnum lyfin. Þetta er hin mesta firra. Viðeigandi lyfjameðferð veldur einfaldlega ekki fíkn hjá börnum og fullorðnum með ADHD. Rannsóknir sýna einmitt að minni hætta er á því að einstaklingur með ADHD verði fíkniefnum að bráð fái hann viðeigandi lyfjameðferð.

Ýmsir sértrúarsöfnuðir og baráttuhópar hafa barist gegn lyfjameðferð við ofvirkni. Áhrif þessara hópa voru mikil um tíma á Norðurlöndum en dregið hefur úr þeim eftir að í ljós kom að rök þeirra voru að litlu leyti byggð á vísindalegum grunni. Börnum sem fá viðeigandi lyfjameðferð við ofvirkni fjölgar því hratt á Norðurlöndum. Nefna má í þessu sambandi að öll landssamtök foreldrafélaga ofvirkra barna í hinum vestræna heimi eru fylgjandi lyfjagjöf við ofvirkni.

Eftir lestur hundraða vísindagreina um efnið og eftir að hafa starfað með hundruðum foreldra og kennara ofvirkra barna er það niðurstaða undirritaðs að lyfjameðferð við ofvirkni eigi svo sannarlega rétt á sér, það er alls ekki verið að leika sér að eldi með lyfjagjöfinni. Þvert á móti eykur lyfjagjöfin líkurnar á því að einstaklingnum vegni vel og hann nái að nýta sér vel þá hæfileika sem í honum búa. Hitt er svo annað mál að bestur árangur næst með því að búa einnig vel að barninu á heimili og í skóla og mikilvægt er að sparnaður í skólakerfinu og stuðningi við foreldra á krepputímum bitni ekki á ofvirkum börnum. Bestur árangur næst sé markvissum uppeldisaðferðum beitt samhliða viðeigandi lyfjameðferð.



Skoðun

Sjá meira


×