Erlent

Stukku loks á dólginn

Óli Tynes skrifar
Út vil ek.
Út vil ek.

Vel puntaður norskur maður olli nokkrum óróa um borð í flugvél SAS frá Kaupmannahafnar til Kristjánssands í gærkvöldi. Hann reyndi margoft að opna hurð vélarinnar yfir Skagerrak til þess að komast út.

Norska blaðið Aftenposten hefur eftir farþega í vélinni að þegar á flugvellinum í Kaupmannahöfn hafi maðurinn verið svo drukkinn að hún hafi verið hissa á að honum skyldi vera hleypt um borð.

Nokkru eftir flugtak hófust svo lætin. Maðurinn hlustaði ekkert á flugfreyjurnar og reyndi hvað eftir annað að komast að hurð vélarinnar til að opna hana.

Flugstjórinn bað að lokum farþegana um að aðstoða flugfreyjurnar við að koma manninum í sæti sitt og halda honum þar. Var þá stokkið á dólginn.

Flugvélin lenti svo heilu og höldnu í Noregi og þar var hinn drukkni handtekinn. Hann á yfir höfði sér þungar ákærur sem geta bæði fært hann á bakvið lás og slá og bakað honum umtalsverð útgjöld vegna sekta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×