Skoðun

„Margur heldur mig sig“ – skrif Þorsteins Pálssonar

Kristinn Dagur Gissurarson skrifar

Þorsteinn Pálsson fjallar um nýjustu atburði á Alþingi af kögunarhóli sínum þann 18. desember 2010 í Fréttablaðinu. Þar veltir hann, meðal annars, fyrir sér hversu veik stjórnin sé orðin eftir að þrír þingmenn VG sátu hjá við atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið. Og í framhaldinu að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi aldrei útilokað „að taka Framsóknarflokkinn upp í". Taka flokkinn með í ríkisstjórn. Þorsteinn heldur því fram að framsóknarmenn verði tilbúnir að samþykkja Icesave umhugsunarlaust ef ráðherrastólar eru í boði.

Hvers konar skrif eru þetta af hálfu Þorsteins! Að gera framsóknarmönnum það upp að þeir séu tilbúnir að selja sálu sína fyrir stóla er forkastanlegt og í raun argasti dónaskapur af Þorsteins hálfu. Það getur vel verið að Þorsteinn hafi ástundað slík vinnubrögð þegar hann var í stjórnmálum og raunar líklegt, ef miðað er við þessi skrif hans.

Framsóknarflokkurinn er sá flokkur sem harðast hefur barist á móti þeim afarkostum sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur boðið íslenskri þjóð í tvígang, með fyrri Icesave-samningum. Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur ásamt öðrum ítrekað bent á að engin lagaleg skylda er fyrir þeim greiðslum sem Bretar og Hollendingar fara fram á.

Hitt er svo annað mál hvort það þjónar heildarhagsmunum þjóðarinnar að samþykkja nýjasta Icesave-samkomulagið. Ýmis rök mæla með því. Samningurinn er umtalsvert betri en síðasti samningur, sem þjóðin hafnaði á eftirminnilegan hátt. Þessi samningur er unninn af fagmennsku og alls ólíkur fyrri samningum sem báru vott um undirlægjuhátt, sérstaklega Samfylkingarinnar, gagnvart Evrópusambandsríkjunum Bretlandi og Hollandi. Kratarnir innan Samfylkingarinnar vildu, og vilja, allt til vinna til þess að ná samningum svo þeir gætu sem fyrst komist undir handarjaðar Evrópusambandsins. Allt var til vinnandi, jafnvel að setja á þjóðina alvarlegan skuldaklafa til framtíðar.

Ég treysti þingmönnum Framsóknarflokksins vel til þess að fara ítarlega yfir þann Icesave-samning sem nú liggur fyrir og greiða síðan atkvæði um hann eftir málefnalega umræðu. Sú aðdróttun af hálfu Þorsteins Pálssonar að forysta og þingmenn flokksins séu tilbúnir að samþykkja samninginn fyrir ráðherrastóla er ámælisverð og honum til álitshnekkis.

En stundum kemur það fyrir að menn falla í þá gryfju að halda að aðrir hugsi eins og þeir, samanber máltækið „margur heldur mig sig".






Skoðun

Sjá meira


×