Skoðun

Aukið lýðræði í nýrri stjórnarskrá

Lýðræðishugsjónina þarf að hafa að leiðarljósi þegar ný stjórnarskrá er samin. Lýðræðið er aukið aðallega á tvennan hátt, með því að endurskipuleggja valddreifinguna í stjórnskipuninni og með meiri þátttöku borgaranna í pólitískum ákvörðunum.

Stjórnarskrá lýðræðisríkja markast af því hvenær þær eru samdar. Forsetaræðið í BNA markast af því að framkvæmdarvaldið er nokkuð óháð löggjafarvaldinu og þannig var það 1776, Jakob I hafði sama vald og forseti BNA hefur í dag. Þingræðisreglan í íslensku stjórnarskránni endurspeglar það valdasamband sem ríkti í Danaveldi þegar hún var samin. Forsetinn er valdalaus, en framkvæmdarvaldið er bundið löggjafarvaldi þingsins.

 

Þingræði og eftirlitsvald

Með valddreifingunni er ætlað að einn valdaþáttur hafi hemil og eftirlit með öðrum. Forsetaræðið væri skref aftur á bak. Völd framkvæmdarvaldsins myndu aukast, og þar með lýðræðið veikjast, öfugt við þá stefnu að auka vald Alþingis til þess að auka lýðræðið. Aðskilnaður framkvæmdarvalds og löggjafarvalds myndi heldur ekki skila auknu lýðræði. Hvort tveggja er pólitískt vald sem er samofið með þingræðisreglunni. Með því að ráðherrar sætu ekki á Alþingi fjölgaði þingmönnum sem styðja stjórnina, og stjórnarandstaðan myndi veikjast.

Aðskilnaður pólitísk valds og faglegs eftirlitsvalds er hins vegar nauðsynleg til að bæta valddreifinguna. Í dag eru allar stofnanir ríkisins sem ekki tilheyra dómsvaldinu undir pólitísku valdi, langflestar undir framkvæmdarvaldinu. Margar þessara stofnana vinna pólitísk verkefni og eiga því heima undir pólitískri stjórn ráðherra. En þar eru einnig faglegar rannsóknar- og eftirlitsstofnanir eða úrskurðarnefndir, sem fara með ekki ósvipað verkefni og dómstólar. Það er óeðlilegt að ákvarðanir slíkra faglegra stofnana sé hægt að kæra með stjórnsýslukæru til pólitísks ráðherra. Einnig eru undir framkvæmdarvaldinu sjálfstæðar ríkisstofnanir og sjálfstæðar stjórnsýslunefndir sem ekki lúta valdi ráðherra og eru því eins og eyjur í stjórnskipuninni. Það er ólýðræðislegt.

Því er ráðlegt að safna öllum faglegum ópólitískum stofnunum ríkisins undir sama hatt og dómsvaldið. Þennan þátt stjórnskipunarinnar mætti kalla eftirlitsvaldið. Þar undir heyrðu þá dómstólarnir, saksóknarar, sýslumenn og fangelsismálayfirvöld, öll löggæsla bæði lögreglan og landhelgisgæslan, allar eftirlitsnefndir og úrskurðarnefndir og allar sjálfstæðar stofnanir. Þá myndu einnig rofna þau ítök sem framkvæmdarvaldið hefur enn í dómskerfinu með því að skipa hæstaréttardómara. Forseti Íslands yrði þá æðsti embættismaður eftirlitsvaldsins. Hann yrði áfram þjóðkjörinn eins og nú, þannig væri lýðræði í eftirlitsvaldinu tryggt. Hann myndi skipa í öll æðstu embætti þess að undangengnu faglegu mati viðkomandi starfsstétta. Hann hefði ekki tengsl við löggjafarvaldið, staðfesti ekki lög og hefði engan málskotsrétt, hefði engin tengsl við framkvæmdarvaldið, kæmi ekki að stjórnarmyndunarviðræðum eða tjáði sig opinberlega um pólitísk málefni. Hann gæti verið ópólitískur þjóðhöfðingi, eða þá bara „umboðsmaður lýðveldisins, lýðræðisins, lýðsins eða umboðssmaður eftirlitsvaldsins".

 

Rökræðulýðræði, þjóðaratkvæði og stjórnlagaþing

Persónukjör til Alþingis er vænlegast til að ná pólitíkinni upp úr því kappræðulýðræði sem hún er í. Flokksræðið með sínum halelújasamkomum myndi veikjast. Í stað ofurvalds flokksformannanna væri hægt að auka virkt rökræðulýðræði, þar sem þingmenn og almennir borgarar gætu með málefnalegum umræðum komist að skynsamlegum niðurstöðum. Þá myndi einnig fækka hrossakaupum og greiðum, það er, ef þú styður mig skal ég styðja þig. Með auknu rökræðulýðræði, þar sem borgararnir taka virkan þátt í pólitískum ákvörðunum, myndast grundvöllur fyrir fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur. Þjóðinni lærist þá að taka yfirvegaðar ákvarðanir.

Þjóðaratkvæðagreiðslur í heimatölvum myndu hins vegar hafa í för með sér skrílræði þar sem áróður og sleggjudómar réðu ferðinni. Hjá því verður ekki komist að fyrsta stjórnlagaþingið, sem stendur fyrir dyrum, verður eingöngu ráðgefandi við Alþingi, þar sem breytingar á stjórnarskránni þurfa vera gerðar á tveimur þingum Alþingis samkvæmt núverandi stjórnarskrá. En síðan þarf að samþykkja það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er mikilvægt að framvegis verði stjórnarskrárbreytingar aðeins gerðar á þjóðkjörnum stjórnlagaþingum en ekki af stjórnmálamönnum. Þeir stjórna í okkar umboði og eiga ekki að semja sínar leikreglur sjálfir.




Skoðun

Sjá meira


×