Erlent

Upphlaup vegna innflytjendalaga

Óli Tynes skrifar
Þinghúsið í Arizona.
Þinghúsið í Arizona.

Mikil geðshræring er í Bandaríkjunum vegna nýrra laga um ólöglega innflytjendur sem hafa verið samþykkt í Arizona.

Lögin eiga að taka gildi í júlí eða ágúst. Í stuttu máli er það gert að lögbroti að vera ólöglega í Bandaríkjunum.

Lögreglumönnum er gert að spyrja fólk um dvalarleyfi þess ef ástæða þykir til að gruna að það sé ólöglegir innflytjendur.

Ef fólkið getur ekki sýnt framá búseturétt er hægt að handtaka það, fangelsa í sex mánuði og sekta það um 2500 dollara. Það eru rúmar 320 þúsund krónur.

Framtil þessa hefur fólki einfaldlega verið vísað úr landi.

Talið er að um 460 þúsund ólöglegir innflytjendur séu í Arizona. Fylkið á löng landamæri að Mexíkó og hvergi er ásóknin meiri hjá fólki sem reynir að smygla sér inn í Bandaríkin.

Sem fyrr segir er geðshræring yfir þessu mikil ekki síst hjá mannréttindasamtökum. Það hefur jafnvel verið hvatt til þess að Arizona verði sett í viðskiptabann.

Barack Obama forseti hefur fyrirskipað rannsókn á því hvort nýju lögin standist stjórnarskrána.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×