Skoðun

Fullveldisafsal - aukinn meirihluti eða ekki?

Kjartan Jónsson skrifar

Á meðal þeirra hugmynda til nýrrar stjórnarskrár sem nefndar hafa verið hjá frambjóðendum til stjórnlagaþings er að engar ákvarðanir sem tengist mögulegu afsali á fullveldi Íslendinga skuli teknar nema aukinn meirihluti kjósenda, t.d. 60%, samþykki það. Ég er ósammála því að það gildi um almennar kosningar en útiloka ekki að það gæti gilt t.d. um kosningar á alþingi.

Fullveldishugtakið er óljóst hugtak og býður upp á ýmsar túlkanir, skýrasta skilgreiningin er e.t.v. sú að fullvalda ríki hefur rétt til að setja lög og framfylgja þeim í ríki sínu, án afskipta erlendra ríkja. Helsta umræðan um fullveldi hefur undanfarið átt sér stað í tengslum við umræðuna um umsókn okkar um aðild að ESB. Andstæðingar ESB aðildar tala um að með inngöngu í ESB afsölum við okkur fullveldi á meðan fylgjendur aðildar segja að með inngöngu fáum við aðkomu að ýmsum stofnunum sambandsins, þar með á ákvarðanatöku og myndun reglugerða sem við höfum orðið að taka upp hér á landi vegna EES samningsins. Þannig sækjum við til baka hluta af þeim áhrifum (fullveldi?) sem við afsöluðum okkur með EES samningnum. Segja má að allir alþjóðasamningar sem Íslendingar gera við aðrar þjóðir feli í sér afsal á broti af fullveldi í einhverjum skilningi. Alþjóðsamningar um minnkun gróðurhúslofttegunda fela þannig í sér að við afsölum okkur því að byggja óheft upp mengandi stóriðju og þ.a.l. erum við ekki alveg sjálfráða í okkar atvinnuuppbyggingu. Þessar bollaleggingar eiga í sjálfu sér ekkert erindi inn á stjórnlagaþing nema sem dæmi - við sköpum ekki nýja stjórnarskrá sem viðbragð við Evrópusambandsumræðu sem er tímabundin og skammæ. Við sköpum nýja stjórnarskrá með því að horfa til næstu árhundruða og með í huga hvað ný stjórnarskrá þarf að innihalda til að þjóna framtíðarkynslóðum þessa lands.

Rök mín fyrir að í málum sem á einhvern hátt tengjast fullveldi landsins sé ekki réttmætt að krefjast aukins meirihluta kjósenda eru þessi: Ekki hafa öll mál sama vægi í nýrri stjórnarskrá. Ég set mannréttindi sem helsta gildi og hryggjarstykkið í stjórnarskránni, öll önnur atriði eru undirskipuð mannréttindum, þ.m.t. hugmyndir um fullveldi. Lýðræði er hluti af mannréttindum og á sama hátt og ekki eru nein gild rök fyrir mismunandi vægi atkvæða í alþingiskosningum þá eru ekki til nein rök eða réttlæting fyrir að atkvæði eins vegi meira en atkvæði annars í kosningum sem snerta afsal fullveldis í einhverjum skilningi. Þar á einfaldur meirihluti að ráða.

Atkvæðaréttur alþingismanns er ekki mannréttindi í þeim skilningi sem atkvæðaréttur fólks er það í almennum kosningum. Þótt rekja megi umboð alþingismanna til niðurstöðu almennra kosninga, þá er vafasamt að krafa um aukinn meirihluta á alþingi geti talist mannréttindabrot í sama skilningi og hún er það þegar um misvægi atkvæða í almennum kosningum er um að ræða.






Skoðun

Sjá meira


×