Erlent

Kveikti í sér eftir að hafa sært fimm börn

Undanfarna þrjá daga hafa vopnaðir menn ráðist inn í kínverska leikskóla og sært leikskólabörn. Mynd/AFP
Undanfarna þrjá daga hafa vopnaðir menn ráðist inn í kínverska leikskóla og sært leikskólabörn. Mynd/AFP
Karlmaður réðst inn í leikskóla í Kína í nótt vopnaður hamri og særði fimm börn áður en hann framdi sjálfsmorð. Þetta er í þriðja sinn á jafn mörgum dögum þar sem ráðist er á kínversk leikskólabörn.

Enginn lést í árásinni en sex voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar, þar af fimm börn. Árásarmaðurinn er bóndi á fimmtugsaldri en ekki vitað af hverju hann réðst inn í leikskólann sem er í norðausturhluta Kína. Starfsmönnum tókst að bjarga tveimur börnum sem maðurinn hafði gripið áður en hann kveikti í sjálfum sér.

Þetta er þriðja árásin á jafn mörgum dögum sem kínversk börn verða fyrir. Í gær ruddist karlmaður inn í leikskóla í austanverðu landinu og stakk 28 börn og þrjá starfsmenn með hnífi. Enginn lést í árásinni en fjögur börn slösuðust alvarlega. Á miðvikudaginn stakk þriðji maðurinn 16 börn og einn leikskólakennara í suðurhluta Kína. Sama dag var 42 ára gamall karlmaður tekinn af lífi fyrir að myrða átta leikskólabörn í síðasta mánuði. Sá notaði byssu við verknaðinn. Maðurinn sagði fyrir rétti að hann hefði myrt börnin vegna þess að hann hefði verið í uppnámi vegna konu sem hefði slitið sambandi við hann.

Undanfarin sex ár hafa árásir sem þessar færst í vöxt í Kína og hafa flestir árásarmannanna átt við geðræn vandamál að stríða eða talið sig eiga einhverra harma að hefna. Kínversk yfirvöld hafa fyrirskipað skólastjórnendum að auka öryggisgæslu sína til að tryggja öryggi barna og starfsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×