Erlent

Bresku dagblöðin skipta um flokka

Tvö af stærstu dagblöðum Bretlands hafa nú lýst yfir stuðningi við stjórnmálaflokka fyrir komandi kosningar í landinu 6. maí næstkomandi. Þar í landi tíðkast það að blöðin veðji á ákveðinn hest og í dag lýsti The Guardian yfir stuðningi við Frjálslynda demókrata.

Blaðið hefur yfirleitt stutt Verkamannaflokkinn í gegnum árin en í leiðara dagsins segir að blaðið myndi kjósa frjálslynda, væri það með kosningarétt. Blaðið segir það hafa verið kolranga ákvörðun hjá Verkamannaflokknum að skipta ekki um leiðtoga fyrr á kjörtímabilinu og nú sé flokkurinn að uppskera eins og hann hefur sáð. Kosningakerfi Bretlands gerir það þó að verkum að litlar líkur eru á því að Frjálslyndir nái meirihluta á þingi og því segir blaðið að kjósendur ættu að íhuga að kjósa Verkamannaflokkinn ef þeir geti ekki hugsað sér að Íhaldsmenn komist til valda.

The Times ákvað einnig í dag að lýsa yfir stuðningi við Íhaldsflokkinn og er það í fyrsta skipti frá árinu 1992 sem blaðið styður íhaldsmenn. Leiðari blaðsins segir í dag að Íhaldsflokkurinn bjóði upp á bjartsýna framtíð fyrir endurnýjað Bretland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×