Erlent

Barónessan sögð vera að hrökklast frá ESB

Óli Tynes skrifar
Ashton barónessa.
Ashton barónessa.

Talið er líklegt að Ashton barónessa muni láta af embætti utanríkismálastjóra Evrópusambandsins einhverntíma á þessu ári.

Barónessan sem er 54 ára gömul tók við embættinu fyrir aðeins sex mánuðum.

Breska blaðið Daily Telegraph segir að háttsettir embættismenn innan sambandsins spái því að hún endist ekki eitt ár í starfi hvað þá þau fimm sem hún lagði upp með.

Ástæðan er sögð sú að hún sé reynslulítill og veikur stjórnmálamaður. Hún hefur orðið fyrir harðri gagnrýni og léttvæg fundin í flestu því sem hún hefur gert.

Til dæmis er sagt að hún hafi ekki þann myndugleika sem þarf til þess stjórna jafn víðfeðmu og flóknu batteríi og utanríkismálastjórnin er.

Hún tali almennum orðum á fundum og hafi ekki reynslu til þess að móta stefnu og fylgja henni eftir. Það sé hreinlega ekki tekið nógu mikið mark á henni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×