Skoðun

Stóryrði dósentsins

Bjarni Harðarson skrifar

Gauti Kristmannsson dósent í þýðingarfræðum sendir undirrituðum heldur óblíðar kveðjur í Fréttablaðinu fyrir nokkrum dögum. Tilefnið er greinakorn sem undirritaður skrifaði í Morgunblaðið. Þar fjallaði ég aðeins um þá órækt sem yrði í tungumáli okkar ef reglugerðarþýðingar vegna ESB aðildar fá að móta hana og verða aflvaki í þróun íslenskunnar, eins og skilja mátti af orðum dósentsins sjálfs í viðtali fyrir skemmstu.

Vegna þessa velur Gauti mér einkunnir eins og þær að ég fari með hálfsannleik, óvinahatur og sögufölsun. Hér er hátt til höggs reitt en minna um rökstuðning. Það helst að í greininni sé vikið að meintum hálfsannleik þar sem ég hafi sagt að kostnaður Íslands við þýðingar muni vaxa við inngöngu í ESB. Um það segir dósentinn:

"Þetta er sígilt dæmi um hálfsannleik, því þó að það sé rétt að kostnaðurinn aukist þá fellur hann ekki lengur á Íslendinga eina heldur ESB allt. Það sparast því umtalsvert fé við það."

Ekki veit ég hvað orðið hálfsannleikur þýðir hjá lektorum við Háskóla Íslands en í mínu móðurmáli nær það yfir þann útúrsnúning staðreyndar sem gerir lygi að sannleika. Allir Evrópufræðingar sem um hafa fjallað viðurkenna fúslega að Ísland muni væntanlega greiða heldur meira til ESB en það fengi í staðin. Hluti af greiðslum okkar eins og annarra þjóða fara til hins mikilvirka þýðingastarfs ESB. Það er barnalegur málflutningur að telja að peningar verði til í höfuðstöðvum Evrópusambandsins og ekki sannleikanum samkvæmt að halda því fram að Íslendingar spari sér fé með því að ganga þar inn.

Seinni hluta greinar sinnar eyðir dósentinn síðan í að færa rök fyrir að þvælulegur málstíll 18. aldar og stofnanamál nútímans sé einhverskonar hugarburður eða sögufölsun upplýsingafulltrúa sem aldrei lesi neinar upplýsingar. Þær bollaleggingar allar læt ég lesendum Fréttablaðsins eftir að dæma. Óvinahatrinu gleymir greinarhöfundur síðan að ræða frekar en gert er í inngangi og er hér fyrirgefið, enda hefur mér aldrei dottið í hug sú fyrra að hatast við nokkurn mann.








Skoðun

Sjá meira


×