Enski boltinn

David Moyes um Louis Saha í kvöld: Hann átti að skora fjögur mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Moyes, stjóri Everton, var brosmildur eftir leikinn í kvöld.
David Moyes, stjóri Everton, var brosmildur eftir leikinn í kvöld. Mynd/AFP
David Moyes, stjóri Everton, var ekkert að missa sig yfir frammistöðu Frakkans Louis Saha í 2-1 sigri Everton á toppliði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Saha skoraði bæði mörk Everton í leiknum og fór illa með John Terry þegar hann skoraði sigurmarkið í seinni hálfleik.

„Hann átti að skora fjögur mörk í þessum leik en ekki bara tvö. Ég gaf honum smá klapp á bakið en gerði það ekki af fullum krafti," sagði David Moyes í léttum tón eftir leikinn í kvöld en Saha lét meðal annars verja frá sér vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks.

„Louis spilaði mjög vel á móti John Terry á Stamford Bridge og ég var viss um að hann myndi endurtaka leikinn í kvöld. John Terry er samt frábær miðvörður og ég skal taka hann ef þeir vilja hann ekki," sagði Moyes.

„Þetta eru frábær úrslit og endurspeglar bara hvernig liðið er búið að vera spila undanfarnar vikur og mánuði. Það er frábært að vinna Chelsea án bæði Marouane Fellaini og Steven Pienaar, sem hafa spilað stórt hlutverk hjá okkur og koma til baka eftir að hafa lent 0-1 undir. Það er ekki mörg lið sem afreka slíkt á móti Chelsea," sagði Moyes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×