Erlent

Var Mossad með árshátíð í Dubai?

Óli Tynes skrifar

Yfirvöld í Dubai hafa nú lýst eftir fimmtán  mönnum til viðbótar vegna morðsins á Hamas manninum Mahmoud al Mabhouh.

Þá eru alls tuttugu og sex eftirlýstir og fer að verða spurning um hvort ísraelska leyniþjónustan Mossad hafi notað tækifærið til þess að halda árshátíð sína í Dubai.

Í bók sinni Njósnarar Gideons segir rannsóknarblaðamaðurinn Gordon Thomas að Mossad hafi fjörutíu sérþjálfaða böðla á sínum snærum.

Að senda tæplega þrjá fjórðu þeirra til að ráða einn mann af dögum sýnist í meira lagi.

Annar möguleiki er sá að fleiri hafi komið við sögu en Ísraelar. Mabhouh var jú eftirlýstur ekki aðeins í Ísrael heldur einnig í Egyptalandi og Jórdaníu.

Ísraelska leyniþjónustan er í talsverðu sambandi við þessi ríki og hefur oft sent þeim aðvaranir um yfirvofandi hryðjuverk eða morðtilræði.

Meðal annars upplýstu Ísraelar Jórdani um mörg samsæri um að ráða Hussein heitinn konung af dögum.

Enn einn möguleiki er sá að Dubai sé að reyna að koma Ísraelum í ónáð hjá sem flestum þjóðum, því nú er því haldið fram að meðal annars hafi verið notuð fölsuð áströlsk vegabréf.

Það hefur vakið litla kátínu meðal andfætlinga.

 

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×