Skoðun

Hvaða lærdóm geta jafnaðarmenn dregið af umbótarskýrslunni?

Ingólfur Margeirsson skrifar

Nú er svonefnd umbótanefnd Samfylkingarinnar búin að leggja fram skýrslu um vankanta og mistök flokksins á Hruntímanum og komið með tillögur um betra og siðaðra framferði. Menn hafa beðið í nokkurn tíma eftir að sumir forystumenn væru dregnir fyrir framan eins konar landsdóm flokksins og fengju mikla og eflaust réttláta dóma. Nefndin hefur útskýrt að hún hafi tekið aðra stefnu; einbeitt sér að flokknum sem slíkum og mistökum hans í samstarfsstjórnum með Sjálfstæðisflokknum. Ugglaust var það mun heppilegri aðferð. Þeim sem þrá hausaveiðar skal þó bent á að auðvelt er að lesa nöfn út úr almennum aðfinnslum um stjórnleysi, aðhaldsleysi gagnvart efnahags- og bankamálum, laus tök á innri málefnum flokksins og svo framvegis. Það er furðulegt að fjölmiðlamenn hafi ekki lesið betur út úr skýrslunni en það eitt hvernig Jóhanna formaður mat einstök atriði og bað þjóðina afsökunar.

Hvað um það. Skýrsla umbótanefndar er tímamótaplagg. Aldrei áður hefur stjórnmálaflokkur skipað nefnd til að greina öll mistök og snögga bletti á flokki sínum og leggja fram fyrir alþjóð.

Það hefði verið mun tímabærra að Hrunflokkarnir, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, skilgreindu sín mistök og kæmu með tillögur að endurbættri vinnu til framtíðar. En báðir þessir flokkar hafa fúlsað við slíkri vinnu. Sjálfstæðisflokkurinn veifaði því mjög að „endurreisn" væri hafin í flokknum og svo yrði haldið áfram. Skýrsla nefndarinnar var kynnt á landsfundi flokksins. Þá sté óvænt í pontu fararstjóri Hrunsins, Davíð Oddsson, fann þessari vinnu allt til foráttu, fordæmdi vinnuna og réðist illa að gömlum félögum sínum eins og Vilhjálmi Egilssyni, formanni nefndarinnar. Þetta var hrottaleg og óvænt árás og mörgum fundarmönnum ógeðfelld.

Að loknum orðum Davíðs, sem enn hafði mikil völd greinilega innan flokksins, var endurreisninni troðið í hvelli niður í skúffu og litli formaðurinn með stóra nafnið hélt áfram á braut forvera síns Davíðs; engin endurskoðun, ESB var versti óvinurinn og eggjum hent í björgunarliðið frá hliðarlínu. Þetta var nú öll reisnin.

Umbótanefndin hvessir augun á mörg atriði. Hún áréttar hvernig haga þurfi starfi, skipulagi og stefnu flokksins svo ekki verði endurtekið að hann sogist inn í atburðarás á borð við þá sem leiddi til hruns bankanna.

Nefndin undirstrikar enn fremur að Samfylkingin stefni að áframhaldandi forystu í íslenskum stjórnmálum og verði að sannfæra stuðningsmenn sína og kjósendur að harmsaga á borð við slæleg vinnubrögð í máli Hrunsins endurtaki sig ekki.

Nefndin er mjög gagnrýnin á að Samfylkingin beygði sig undir vald Sjálfstæðisflokksins; að hún hafi endurtekið hlutverk margra smáflokka á 20. öld sem studdu stefnu Sjálfstæðisflokksins og kusu hann til forystu meðan litlir molar féllu til þeirra á sama tíma sem smáflokkarnir voru sakaðir um spillingu. Sagan átti að sýna að aðeins Sjálfstæðisflokkurinn væri óspilltur. En sagan er kenjótt.

Í ljósi undanfarinna atburða verður áhugavert fyrir Íslendinga framtíðarinnar að fylgjast með hver eftirmælin um Sjálfstæðisflokkinn verða. Sér í lagi á nýfrjálshyggjutímanum í formannstíð Davíðs Oddssonar. Samfylkingin fylgdi ekki eftir eigin stefnu um fagmennsku og ábyrgð. Hún missti einnig af tækifærinu til að endurskoða starfsemi stjórnsýslunnar og stjórnmálamanna sem flokkurinn hafði boðað í skýrslunni. Samfylkingin fylgdi með öðrum orðum ekki eigin reglum og sveik þjóðina þegar hún var komin til valda. Hver getur treyst slíkum flokki til framtíðar? En Samfylkingin gerði samt hreint fyrir sínum dyrum. Það hafa grjótkastarar stjórnarandstöðunnar ekki gert.

Meginniðurstaða nefndarinnar er þessi: Samfylkingin hafði frá upphafi verið veikari aðilinn í samstarfi hennar og Sjálfstæðisflokksins. Sennilega er ástæðan að þingflokkurinn var samsettur af einstaklingum sem voru áður í litlum flokkum sem voru vanir að leika aðra fiðlu í stórsinfóníuhljómsveit Sjálfstæðisflokksins.

Það eitt ýtir undir brýnni þörf flokksins að skilgreina sig. Samfylkingin verður aldrei samstarfsaðili eða stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins. Stefna íhaldsmanna og kapítalista og jafnaðarmanna eru gjörólíkar. Þess vegna var og er Sjálfstæðisflokkurinn helsti pólitíski andstæðingur Samfylkingarinnar og öfugt. Á þessari staðreynd verður Samfylkingin að byggja í framtíðinni. Annars verður flokkurinn bara sama pólitíska hækja Sjálfstæðisflokksins eins og sundurleitir smáflokkar á liðinni öld.

Nú átta menn sig á, að Samfylkingin er stór og breið fylking með öflugt flokksstarf og með meirihluta kjósenda á bak við sig. Stjórnarandstaðan hefur vonað í þó nokkurn tíma að vinnuálagið og allt að því ómannleg vinna sem núverandi ríkisstjórn hefur tekist á við myndi brjóta hana á bak aftur og leysa hana upp með minnkandi fylgi og flótta kjósenda. Annað hefur komið í ljós.

Nýjustu skoðanakannanir sýna, að stjórnin stendur styrkum fótum og Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og aðrir stjórnarandstöðuflokkar njóta ekki mikils fylgis. Þjóðin hefur engu gleymt eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt vonað. Þetta er m.a. ástæðan fyrir skrifum hins froðufellandi skipstjóra í gjaldþrota dagblaði í Hádegismóum. Veldi Sjálfstæðisflokksins virðist alls staðar að hrynja; hjá lesendum Morgunblaðsins, fylgi við Sjálfstæðisflokkinn og áhrifum í stjórnsýslu. Með umbótaskýrslunni, sem misheppnaðir brandarakallar hjá Sjálfstæðisflokknum eru strax teknir að uppkalla, hefur Samfylkingin tekið sitt fyrsta skref í átt að uppbyggingu ímyndar sinnar og trúverðugleika. En ein skýrsla er ekki nóg. Nú þurfa verkin að tala. Í tómarúmi stjórnmálanna í dag eru allar forsendur þess að Samfylkingin geti vaxið.

Allir jafnaðarmenn hljóta að vona að það muni skýrsla umbótanefndar kenna okkur.






Skoðun

Sjá meira


×