Handbolti

Fyrsta tap Dags á tímabilinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin.
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin. Nordic Photos / Bongarts

Lærisveinar Dags Sigurðssonar í Füchse Berlin töpuðu í dag sínum fyrsta leik á tímabilinu í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Füchse Berlin mætti í dag sterku liði Hamburg á útivelli og tapaði með fjögurra marka mun, 31-27.

Hamburg náði forystunni snemma leiks og lét hana aldrei af hendi. Staðan í hálfleik var 16-13. Füchse Berlin var þó aldrei langt undan og það var ekki fyrr en á síðasta stundarfjórðungi leiksins að Hamburg náði að sigla fram úr og tryggja sér sigurinn.

Alexander Petersson náði sér ekki á strik í dag og skoraði eitt mark fyrir Füchse Berlin.

Einn annar leikur fór fram í deildinni í dag en Magdeburg vann þá góðan útisigur á Lemgo, 27-25.

Fjögur lið eru nú efst og jöfn í deildinni með fjórtán stig eftir átta leiki. Þetta eru Kiel, Hamburg, Füchse Berlin og Rhein-Neckar Löwen.

Það var einnig leikið í Meistaradeild Evrópu í dag. Álaborg vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu er liðið lagði Dinamo Minsk, 33-29, eftir að hafa verið fimm mörkum undir í hálfleik, 16-11.

Ingimundur Ingimundarson komst ekki á blað hjá Álaborg að þessu sinni.

Kadetten Schaffhausen, lið Björgvins Páls Gústavssonar, vann tíu marka sigur á St. Gallen í svissnesku úrvalsdeildinni í dag, 35-25, og er á toppi deildarinnar með fimmtán stig af sextán mögulegum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×