Lífið

Vökudeildin fær hundruð húfa

Hafdís Priscilla afhendir vökudeild Barnaspítala Hringsins um 600 prjónaðar fyrirburahúfur á aðfangadag, mun fleiri húfur en hún bjóst við að fá.Fréttablaðið/GVA
Hafdís Priscilla afhendir vökudeild Barnaspítala Hringsins um 600 prjónaðar fyrirburahúfur á aðfangadag, mun fleiri húfur en hún bjóst við að fá.Fréttablaðið/GVA
„Það eru komnar hátt í 600 húfur og svo fékk ég líka sjö teppi og eitthvað af sokkapörum,“ segir Hafdís Priscilla Magnúsdóttir, sem ætlar að afhenda vökudeild Barnaspítala Hringsins handprjónaðar húfur handa fyrirburum deildarinnar á morgun, aðfangadag.

Fréttablaðið sagði frá því í byrjun nóvember að Hafdís Priscilla hefði í hyggju að prjóna húfur fyrir vökudeildina. Hún setti prjónaviðburðinn inn á samskiptasíðuna Facebook, fyrir vini og vandamenn, en átakið vatt upp á sig og um 850 manns skráðu sig á síðuna. Hún segir hins vegar að fleiri hafi haft samband eftir að fréttin birtist. „Það eru ekki allir á Facebook og eldri konur sem lásu fréttina höfðu samband og vildu endilega vera með,“ segir Hafdís, en hún er sjálf búin að prjóna fjórar húfur og sú fimmta er á leiðinni.

Hafdís segir misjafnt hversu margar húfur hver og einn geti prjónað. „Sumar prjóna eina húfu en aðrar kannski fimm. Það var ein sem prjónaði 35 húfur. En að halda utan um allar þessar 600 húfur var aðeins meira en ég bjóst við,“ segir Hafdís og hlær. Húfurnar verða afhentar á morgun, en þá ætlar hún að ferja þær frá heimili sínu og niður á Barnaspítala.

„Við keyptum plastkassa í Rúmfatalagernum og röðuðum húfunum ofan í eftir stærð, og þannig ætlum við að ferja þetta allt saman,“ segir Hafdís, en hún vill þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við prjónaskapinn.- kaFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.