Skoðun

Um siðferði og bankahrun – seinni grein

Ari Skúlason skrifar
Íslenska bankahrunið var gríðarlega stórt. Eignarýrnun bankanna var um 7.800 milljarðar króna, eða sem nemur fimmfaldri landsframleiðslu og um 25 milljónum króna á hvert mannsbarn. Hrunið var mun flóknara en svo að bara sé hægt að segja að of mikið hafi verið lánað til venjulegra viðskiptavina. Væntanlega var um alvarlega markaðsmisnotkun að ræða, gífurleg útlán til „eigenda" bankanna og tengdra aðila, kannski meiri græðgi en annarsstaðar, einbeittari ásetning um að fara ekki eftir reglum, minna eftirlit, meiri þátttöku stjórnmálamanna og alls kerfisins í því að spila með nýjum eigendum og stjórnendum bankanna o.s.frv. Áfram mætti sjálfsagt lengi telja.

Við höfum eytt síðustu tveimur árum í að finna út hvað gerðist. Rannsóknarskýrsla Alþingis er stærsta skrefið á þeirri vegferð og með henni hefur verið lagður grunnur að frekari umfjöllun. Eining virðist ríkja um meginniðurstöður skýrslunnar, en hún er þó alls ekki fullkomin. Þeir sem vel þekkja til í einstökum málum telja að sums staðar skorti á dýpt og þekkingu. Ég hef t.d. átt þátt í að skrifa ítarlegar athugasemdir við kaflann um verðbréfa- og fjárfestingasjóði. Ég er alls ekki að halda því fram að meginniðurstöður kaflans séu rangar, einungis er verið draga fram ýmis atriði sem ýmist eru röng eða byggð á misskilningi án þess að það kollvarpi niðurstöðunni.

Hluti Rannsóknarskýrslunnar er helgaður siðferðilegri hlið hrunsins og umfjöllun um það hvort skýringar á hruni bankanna megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði. Vinnuhópur um siðferði taldi að siðferði og starfshættir bankamanna hlytu að vera í brennidepli í slíkri rannsókn, en óhjákvæmilegt væri að skýra slíkt í tengslum við starfshætti í stjórnsýslu eftirlitsstofnana og siðferði stjórnmálamanna, en einnig í samhengi við t.d. fjölmiðla og háskólasamfélagið.

Dómur vinnuhópsins er harður; Starfsháttum og siðferði var víða ábótavant í íslensku samfélagi og það er hluti af skýringunni á því hve illa fór. Þetta á jafnt við í stjórnmálum, viðskiptalífi, stjórnsýslu og fjölmiðlum. Hópurinn taldi að í fyrirtækjamenningu bankanna hafi siðferðilegir þættir verið vanræktir og að dyggðum sem séu kjölfesta góðra viðskiptahátta hafi verið kastað fyrir róða.

Í því samhengi er t.d. bent á þrönga hagsmunagæslu fyrir ákveðna skjólstæðinga innan bankakerfisins. Fullyrt er að hvatakerfi bankanna hafi miðast við skammtímagróða stjórnenda og eigenda á kostnað smærri hluthafa og almennings. Þá nutu eigendur bankanna óheftrar fyrirgreiðslu og taumlítil gróðahyggja einkenndi samskipti bankamanna við viðskiptavini um leið og traust almennings var misnotað.

Smæð samfélagsins og kunningjatengsl ýttu undir traust og samstöðu sem veikti skilyrðin fyrir nauðsynlegu aðhaldi. Engin stemning reyndist fyrir gagnrýni á það sem fram fór. Bankakerfið varð íslensku stjórnkerfi ofviða og atburðarásin í aðdraganda bankahrunsins afhjúpaði alvarlega veikleika í stjórnsýslunni. Stjórnmálamenn vanræktu margvíslegar skyldur sínar og brugðust almenningi. Vikið var frá eðlilegum starfsháttum við einkavæðingu bankanna og reynslulitlum aðilum treyst fyrir helstu fjármálastofnunum landsins.

Margir aðrir innviðir lýðræðissamfélagsins reyndust líka veikburða að mati hópsins. Fjölmiðlar ræktu illa það hlutverk sitt að upplýsa almenning og veita stjórnvöldum og einkaaðilum gagnrýnið aðhald og þeir áttu stóran þátt í að móta og viðhalda ríkjandi orðræðu um velgengni íslensks fjármálalífs. Háskólamenn hefðu sömuleiðis getað lagt meira af mörkum í opinberri umræðu á grundvelli sérþekkingar sinnar.

Skýrsla vinnuhópsins um siðferði og starfshætti sýnir í hnotskurn að brýn þörf er á siðvæðingu á fjölmörgum sviðum í íslensku samfélagi. Þótt margir hafi vissulega gerst sekir um ámælisverða hegðun og á því þurfi að taka með viðeigandi hætti, telur hópurinn varasamt að einblína á einstaklinga. Hann telur að siðvæðing íslensks samfélags sé nauðsynleg og það sé langtímaverkefni sem krefjist framlags frá fólki á öllum sviðum samfélagsins. Niðurstaða hópsins er því sú að ábyrgðin af hruninu liggi víða.

Öll þekkjum við eftirmál rannsóknarskýrslunnar. Umræðan fer í hringi og hver bendir á annan þegar kemur að mögulegri ábyrgð. Stjórnmálamenn hafa þráast við að segja af sér og allir keppast við að bera af sér sakir. Þó sjást nokkur merki um breytingar. T.d. hefur fyrrverandi ráðuneytisstjóri verið ákærður fyrir innherjasvik og þrír einstaklingar ákærðir í tengslum við svokallað Exeter-mál. Stjórnendur tveggja banka hafa verið sakaðir um markvissa og alvarlega markaðsmisnotkun og Alþingi hefur ákveðið að stefna fyrrverandi forsætisráðherra fyrir Landsdóm fyrir meinta alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum.

Aðstæður í samfélaginu eru sérkennilegar. Enn skortir verulega á traust og það hefur reynst erfitt að sýna nægjanlega vel fram á að mikið hafi breyst eftir hrun. Einungis lögreglan (91%), Háskóli Íslands (68%) og Ríkisútvarpið (52%) njóta trausts meira en helmings almennings. Aðeins 3% treysta fjármálakerfinu, 6% Fjármálaeftirlitinu og 7% treysta sjálfu Alþingi.

Í almennri umræðu er iðulega fullyrt að enginn munur sé á umhverfi, vinnuaðferðum og siðferði í fjármálakerfinu fyrir og eftir hrun. Þetta er að hluta rétt. Mörg ný ráðgjafafyrirtæki hafa tekið til starfa og þar eru innanborðs starfsmenn úr gamla kerfinu og þeir fást við enduruppbyggingu atvinnulífsins. Sumir aðalleikendur hrunsins fást við ráðgjafaþjónustu, bæði hérlendis og erlendis. Þá eru ótaldar slitastjórnir gömlu bankanna sem margir telja að starfi í anda sem sé lítt frábrugðinn gamla kerfinu. Því má þó ekki gleyma að í nýju bönkunum hafa verið gerðar víðtækar skipulags- og mannabreytingar frá því sem var.

Það er engu að síður ljóst að við eigum enn langt í land á þeirri leið sem við þurfum að fara til að endurskapa traust, siðferði og trú á framtíðina. Allt of mörgum spurningum er enn ósvarað um siðferðilegu hliðina og ábyrgðina á hruni hagkerfisins. Svörin við spurningunum eiga að hjálpa okkur að byggja upp til framtíðar en líkt og í Mattheusarguðspjalli þá stöndum við frammi fyrir vali um hvaða leið við viljum feta. Þar segir að vítt sé hliðið og vegurinn breiður sem liggi til glötunar og að þeir séu margir sem þar fara inn. Hins vegar sé það hlið þröngt og sá vegur mjór sem liggi til lífsins og þeir séu fáir sem finna hann (Matt 7:14).

Vonandi njótum við þeirrar gæfu að finna réttu leiðina.

 

---



byggt á erindi sem höfundur hélt á ráðstefnu norrænna fyrirtækja innan UN Global Compact í október sl. Fyrri greinin birtist í gær

 

 




Skoðun

Sjá meira


×