Skoðun

Stjórnlagaþing meira en 200 milljóna króna virði

Eftir örfáar vikur fara fram kosningar til stjórnlagaþings. Margir hafa deilt um kosti og galla þess.

En hvað er þetta stjórnlagaþing og til hvers er það? Jú, stjórnlagaþing á að koma saman þann 15. febrúar nk. og starfa í tvo til fjóra mánuði í lotum. Það besta er að allir mega bjóða sig fram, og ef þú nærð kjöri verður atvinnurekandinn þinn að gefa þér frí. Svo er bónusinn að þú nýtur sömu launa og kjara eins og þú sért Alþingismaður. Stjórnlagaþingið ætlar að taka fyrir íslensku stjórnarskrána, sem er í sjö köflum.

Stjórnlagaþingið ætlar að fjalla um kosningar, forsetann, þingmenn, já, og ráðherraábyrgð, dómstólana svo ekki sé minnst á mannréttindin.

Það eru margir sem halda að eingöngu lögfræðingar og stjórnsýslufræðingar megi gefa kost á sér. Ég segi bara, það er rangur misskilningur eins og einn færeyingur orðaði það svo skemmtilega. Allir mega gefa kost á sér til Stjórnlagaþingsins. Allir þeir sem eru orðnir 18 ára og eru ekki þingmenn, varaþingmenn eða dómarar.

Að mínu mati skiptir miklu máli að þetta þing fái tækifæri til þess að fjalla um sjálfa stjórnarskrána. Enda plagg síðan á 19. öld.

Á stjórnlagaþinginu eiga 25 til 31 einstaklingur að skiptast á skoðunum um ráðherraábyrgð, Ísland eitt kjördæmi, þingrof og mannréttindi. Svo ekki sé minnst á forsetaembættið á það að vera til áfram eða á það að víkja, svo eitthvað sé nefnt.

Ef ég væri stjórnlagaþingmaður þá myndi ég beita mér fyrir því að hafa mannréttindakaflann sem fyrsta kaflann í stjórnarskránni, en ekki í síðasta kaflanum líkt og hann er í dag.

Ég hvet þá sem ætla að gefa kost á sér að beita sér fyrir þessu.

Framboðsfrestur er til 18. október. Við Íslendingar höfum allt að vinna og engu að tapa. Ég minni á að kosningarnar eru persónukosningar. Svo ekki þarf að kjósa flokka eða hópa. Loksins, loksins fær almenningur að kjósa fólk. Svo verður Ísland eitt kjördæmi. Þannig að Gunna á Akureyri getur kosið Jón á Selfossi. Ég hef fulla trú á því að ný stjórnarskrá sameini okkur sem eina þjóð á ný og færi þjóðinni nýja og bjartari tíma.






Skoðun

Sjá meira


×