Erlent

Drambið leiddi til dauðarefsingar

Morðingin og áhugalögfræðingurinn Paul Powell var tekinn af lífi í Virginíu í Bandaríkjunum í gær. Powell drap unga konu og nauðgaði systur hennar árið 1999. Hann var handtekinn og fór saksóknarinn fram á dauðarefsingu. Dómarinn hafnaði því en dæmdi hann í fangelsi þess í stað.

Þá tók Powell upp á því að skrifa saksóknaranum bréf og vildi hann sýna honum fram á hve illa málið hefði verið rekið. Morðinginn hefur greinilega horft á þætt á borð við Law and Order og var hann þess fullviss að ekki væri hægt að dæma hann fyrir sama glæpinn tvisvar. Hann fór því yfir það í heild sinni í bréfinu og sagði í smáatriðum frá því sem gerst hafði.

„Ég býst við að ég hafi "gleymt" að minnast á þetta þegar þið yfirheyrðuð mig. Ha Ha! Eruð þið ekki fúlir yfir því að vera svona heimskir?," spurði Powell.

Þetta var nóg til þess að hægt var að taka málið upp að nýju. Saksóknarinn gerði þá aðra tilraun og í þetta sinn féllst dómarinn á að dæma Powell til dauða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×