Erlent

Bretar ætla sjálfir að sjá um Argentínu

Óli Tynes skrifar
Í stríðinu 1982 sökktu Bretar beitiskipinu Belgrano. Þeir misstu sjálfir nokkur herskip en höfðu sigur.
Í stríðinu 1982 sökktu Bretar beitiskipinu Belgrano. Þeir misstu sjálfir nokkur herskip en höfðu sigur.

Bretar hafa afþakkað milligöngu Bandaríkjamanna í hinni nýju deilu við Argentínu um yfirráð yfir Falklandseyjum.

Talsmaður Gordons Brown forsætisráðherra sagði að engin þörf væri fyrir beina þáttöku Bandaríkjanna við lausn málsins.

Falaklandseyjar eru um 260 sjómílur undan ströndum Argentínu en Bretar hafa ráðið þeim síðan 1833. Árið 1982 hertóku Argentínumenn eyjarnar en breskur floti hrakti þá á brott.

Ástæðan fyrir því að deilan hefur nú blossað upp á ný er sú að Bretar eru að hefja olíuborun norðan af eyjunum.

Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna er nú í heimsókn í Argentínu. Hún sagði á blaðamannafundi í gær að hún teldi deilendur fullfæra um að leysa málið sín á milli.

Ef hinsvegar Bandaríkin gætu á einhvern hátt veitt aðstoð væru þau reiðubúin til þess.

Gordon Brown hefur nú sagt nei takk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×