Skoðun

Um afskriftir lána

Oddur Friðriksson skrifar
Fyrir síðustu alþingiskosningar voru hafðar uppi yfirlýsingar um að skjaldborg yrði slegið um heimili landsmanna, fögur fyrirheit og kjósendur trúðu þeim, síðan er liðið rúmt ár. Í sl. viku litu þó dagsins ljós lög sem miða að því að bæta stöðu skuldsettustu heimilanna og er það vel. Þessar aðgerðir gera fólki kleift að losna undan skuldum sem það ræður ekki við eins og félagsmálaráðherra orðar það.

Talið er að aðgerðir þessar komi til með að gagnast allt að fimm þúsund heimilum en vitað er að allt að 22 þúsund heimili þurfi á umtalsverðum skuldbreytingum að halda. Þar mun fyrst og fremst vera miðað að frestunum afborgana og lengingu lánstíma - eða því að almenningur skuli borga og lánveitendur fá sitt. Nánast óþekkt er að almennir lánþegar hafi fengið afskriftir á sínum lánum eða hluta þeirra frá því að fjármálakerfið fór hér á hliðina.

Afskriftir lána eru þó vel þekktar - þær eiga sér stað innan skilanefnda bankanna, til þeirra sem voru gerendur að þessu hruni - þeirra sem fengu kúlulánin til að viðhalda röngu verði bankanna, þeir skulu sleppa við að vera ábyrgir gjörða sinna, og koma út úr þessu hruni með skuldlausum eignum sem keyptar voru fyrir arðinn af röngum hagnaðartölum - er nema von að almenning svíði.

Það á að tala um leikendur á sviðinu, þar voru bankar, atvinnnufjárfestar og almennir lántakendur, þar voru líka stjórnvöld sem klöppuðu bankana upp, löngu eftir að í óefni var komið. Almennir lántakendur, heimilin fóru í greiðslumat fagmanna (að því að þeir héldu) og lántaka þeirra byggðist alfarið á útkomu úr því mati, það er þeirra helsta sök, að hafa treyst óheiðarlegum bankamönnum og óábyrgum stjórnmálamönnum.

Við upphaf þessa hruns var kannski ekki óeðlilegt að álykta sem svo að um alþjóðlegt fjármálahrun væri að ræða og boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar gætu komið okkur út úr verstu brimsköflunum og meirihluti almennings var þessu sammála og hefur frá hruni verið reiðubúinn eða neyddur til að leggja á heimili sín þær auknu byrðar sem af hruninu leiddu, s,s hækkað verðlag. Við útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis breyttist allt. Í ljós kom svart á hvítu að bönkunum hafði verið rænt innan frá og landsmenn allir plataðir.

Hæstiréttur hefur kveðið upp sinn dóm varðandi gengistryggingu almennra bílalána og ljóst er af yfirlýsingum ráðamanna að vegið er að styrkleika bankakerfisins. Seðlabanki Íslands og FME hafa lagt fram hugmyndir sem miða einhverjum sanngirnissjónarmiðum til handa fjármögnunarfyrirtækjunum, (þeim sem lögbrotið frömdu) og viðhalds núverandi efnahagskerfis.

Nokkuð ljóst er að lántakendur munu ekki verða viðhlæjendur þeirra sem vinna að því að fullkomna glæpinn.

Staðreyndir tala sínu máli. Það liggur fyrir að hafið er mál þar sem þess verður krafist að þeirri stökkbreytingu verðtryggðra lána sem varð hér í aðdraganda efnhagshrunsins verði skipt á milli lántakenda og fjármagnseigenda á grundvelli samningalaganna. Það skyldi enginn útiloka það að dómstólar taki ekki tillit til hagsmuna lántaka í því máli. Gangi það eftir er ljóst að núverandi efnhagskerfi er hrunið - og þá mun koma til afskrifta hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Í þessu ljósi hefur ríkisstjórn félagshyggjuaflanna val, hún getur gengið á fund kröfuhafanna og tilkynnt þeim að leikurinn sé tapaður og hjá frekari afskriftum verði ekki komist. Hún getur líka valið þá leið sem nú er farin að láta afleiðingar efnahagshrunsins lenda hvað þyngst á íslenskum heimilum og fyrirtækjum. Vissulega myndi þessi stefna henta fjármagnsöflunum og viðhalda því efnahagskerfi sem nú stendur á brauðfótum.

Kjósendur félagshyggjuaflanna bíða nú eftir hvora leiðina stjórnvöld kjósa að fara, fylgja réttlæti fjármálaaflanna og hagkerfi sem þarfnast uppstokkunar eða hvort þau þori að standa með yfirskuldsettum heimilum og fyrirtækjum landsmanna og byggja upp nýtt Ísland.






Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×