Skoðun

„Kjarninn er andi, skelin leir“

Jóhann Tómasson skrifar

Ég bauð móður minni á útgáfutónleika Gissurar Páls Gissurarsonar tenórs í Salnum fyrir nokkrum vikum. Það var stund, sem snart viðkvæmt hjartað.

Mér varð eins og oft hugsað til bróður míns, sem farið hefur á mis við hina göfgu list, en hann missti heyrn tveggja ára gamall árið 1949. Kristján Jóhannsson söng með Gissuri lokalagið. Hann hreif áheyrendur sannarlega, þótt ljóst megi vera, að aldurinn er farinn að segja til sín.

Fyrr mætti nú líka vera. Það urðu mér því sár vonbrigði að lesa dóm Jónasar Sen í Fréttablaðinu um söng Gissuarar á fyrsta hljómdiski hans. Út yfir tók þó, þegar ég las dóm Jónasar Sen um æviverk Kristjáns Jóhannssonar. Hreint ofbeldisverk.

Ég hef fylgzt með Kristjáni í áratugi, enda nánast jafnaldra honum. Kristján, líkt og margir tilfinningamenn, hefur kynnzt því rækilega hvað það getur kostað. Hann hefur stórt og heitt hjarta. Hann hefur hrifið fjöldann og náð hátindum á eigin verðleikum.

Hann hefur ekki getað skýlt sér á bak við aðra eins og gervimennin. Íslendingar hefðu gott af því núna að lesa kvæði Davíðs Stefánssonar. Þeir gætu t.d. byrjað á „Söng loddarans". Lífið hefur kennt mér, að þeir sem geta gera, en þeir sem geta ekki predika, dæma og nota aðra.

Kvæðið „Flugmenn" byrjar svona:

„Kynslóð fæðist kynslóð deyr.

Kjarninn er andi, skelin leir,

sem brestur af feigð og fúa."

Fjórða erindið er þannig:

„Hirtu hvorki um lof né last

né lyginnar streymandi iðukast.

Vertu heill, - ekki hálfur.

Bliknaðu ekki þótt blási hvasst

og bregðist þér heilar álfur,

en knýðu vængina og flugið fast

og fljúgðu til himins sjálfur."

Söngur Kristjáns Jóhannssonar og ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi munu halda áfram að fljúga meðan ærlegar tilfinningar blakta í brjóstum Íslendinga.






Skoðun

Sjá meira


×